Alvarlegt umferðarslys við Grafará í gærkvöldi
Alvarlegt umferðarslys varð á Siglufjarðarvegi, við Grafará skammt sunnan við Hofsós, um klukkan hálf níu í gærkvöldi. Í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi vestra kemur fram að bifreið sem ekið var í norðurátt kastaðist utan vegar með þeim afleiðingum að ökumaður hennar og þrír farþegar slösuðust.
Einn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítala Háskólasjúkrahús en aðrir fóru með sjúkraflugi á sama stað. Frekari upplýsingar um ástand þeirra liggur ekki fyrir.
Fram kemur í tilkynningunni að hópur ungmenna, tæplega 30 einstaklingar, sem voru á leið í samkvæmi á Hofsós, voru á vettvangi slyss er lögreglu bar að. Þeim var fylgt í húsnæði Björgunarsveitarinnar Grettis á Hofsósi þar sem lögregla, björgunarsveit og áfallateymi RKÍ hlúðu að þeim.
Veginum var lokað á meðan rannsóknarnefnd sa,gönguslysa var á vettvangi en um tíma var opnuð hjáleið fyrir foreldra og aðstandendur þeirra svo unnt væri að koma öllum í faðm fjölskyldu sinnar eða vina. Bakvakt barnaverndar í Skagafirði var í sambandi við lögreglu á vettvangi og var upplýst um aðgerðir.
Vegurinn var opnaður fyrir umferð kl. 01.07 í nótt en áfram verður unnið á vettvangi í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.