„Hér hljómar kirkjutónlist og þungarokk í bland“ / SÓLEY SIF
Að þessu sinni er það Skagstrendingurinn Sóley Sif Jónsdóttir sem svarar Tón-lystinni en hún er fædd árið 2007, dóttir Jóns Ólafs Sigurjónssonar, slökkviliðsstjóra á Skaga-strönd, og Hugrúnar Sifjar Hallgrímsdóttur, organista og tónlistarskólastjóra, en þau hjónin eru fólkið á bakvið Útfararþjónustuna Hugsjón á Skagaströnd. Sóley Sif spilar mest á píanó en hún syngur einnig og svo spilar hún á trommur.
„Ég lauk miðprófi á píanó 14 ára gömul. Hef sungið í Söngvakeppni MA og svo hef ég tekið þátt í að vígja nýuppgerðan flygil í Davíðshúsi á Akureyri sem var í eigu Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, “ segir Sóley Sif þegar hún er spurð um helstu afrek sín á tónlistarsviðinu.
Hún er á leiðinni í 2. bekk Menntaskólans á Akureyri og er einnig nemandi í Tónlistaskóla Akureyrar. „Ég er líka að spila með hljómsveitinni Skandal, við erum nýbúnar að koma fram á tónleikum á Blönduósi [á Húnavöku] og Skagaströnd,“ segir Sóley. Það má bæta því við að Skandall spilaði einnig á Fiskideginum mikla á Dalvík í ágúst en alla jafna er hljómsveitin skipuð fimm stúlkum en þrjár þeirra eru af Norðurlandi vestra; Sóley, Inga Suska frá Blönduósi og Sólveig Erla sem er frá Tjörn í Skagabyggð. En snúum okkur að spurningunum.
Hvaða lag varstu að hlusta á? Redbone með Childish Gambino, það er grooví.
Uppáhalds tónlistartímabil? Ég er með mjög fjölbreyttan tónlistarsmekk, rokk og popp frá öllum áratugum.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Það er mikið um forvitnilega tónlist á TikTok, alls konar bútar úr gömlum og nýjum lögum.
Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? Brick House is með Commodores.
Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvað lag tækjuð þið? Ég myndi ekki segja nei við dúett með Bubba Morthens, við tækjum lagið Rómeó og Júlía af því að það er uppáhalds lagið mitt með honum.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var og er hlustað á mjög blandaða tónlist á mínu heimili. Mamma og pabbi eru á fullu í tónlist og hér hljómar kirkjutónlist og þungarokk í bland.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Pabbi setti nokkur lög inná iPod sem ég átti. Það var svona best of pabbi.
Hvaða græjur varstu þá með? Bleikan iPod mini.
Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Það er Ik Ben Verliedf ( Sha-la-lie) með Sieneke. Þetta lag keppti í Eurovison árið 2010 og ég dýrkaði það.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? Flest með Taylor Swift.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Abba, aldrei spurning.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Þögnina.
Hvaða Bítlalag hefðir þú viljað hafa samið / hvað er svona spes við það / eða er eitthvað annað sem þú hefðir viljað hafa samið? Bohemian Rhapsody með Queen. Það er stórkostlegt lag.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég væri til í að fara á tónleika með Coldplay, ekki væri verra ef þeir væru í Kaupmannahöfn, þá gæti ég skroppið í Tivolí í leiðinni. Ég tæki alla fjölluna með.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Ég er ekki komin með bílpróf en ég ætla að blasta á Bubba Morthens.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Mig hefur dreymt um að vera Ragga Gísla, hún er ekki eðlilega nett.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? Það er Hátíð fer að höndum ein með Þrjú á palli. Hún hefur verið spiluð öll jól frá því ég man eftir mér. Pabbi er líka búinn að tryggja sér mörg eintök af plötunni á vinyl sem hann gefur okkur systkinum þegar við förum að halda jólin sjálf.
Sex vinsæIustu lög Sóleyjar
Ég er farinn / Úlfur Úlfur
Valur og jarðaberjamaukið hans / Grýlurnar
Kveðja / Bubbi
Rómeó og Júlía / Bubbi
Bakka ekki út / Aron Can og Birnir
Afgan / Bubbi
- - - - - -
Tón-lyst Sóleyjar birtist í 33. tölublaði Feykis sem kom út í byrjun september.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.