Búkalú kemur öllum í stuð / BERGLIND ÓLA
Berglind Óladóttir er íbúi í sveitarfélaginu Reykjavík og af þeim ágæta árgangi´77. Hljóðfæri Berglindar er Yamaha skemmtari, hún lærði á píanó í nokkur ár en æfði sig heima á þennan skemmtara. Hann fylgir henni enn.
Hvar ólstu upp? Í kaupstaðnum Sauðárkróki, 291 km frá Reykjavík miðað við leiðina Hvalfjarðar-göng, Borgarfjarðarbrú, Holtavörðuheiði, Þverárfjall.
Helstu tónlistarafrek: Fyrsta stigs, og þá meina ég fyrsta, próf á píanó og fumlaus flutningur með The Big Band, skólahljómsveit Tónlistarskóla Sauðárkróks, á tónleikum í Danmörku árið 1992.
Uppáhalds tónlistartímabil? Þessari spurningu get ég ekki svarað og ætla því að ímynda mér að þarna standi: Segðu frá nokkrum mikilvægum tímabilum í þróun tónlistarsmekks þíns: Þau eru fjögur. Hið fyrsta hófst þegar ég var 14 ára en þá heyrði ég lagið Kashmir með Led Zeppelin. Það varð til þess að ég fór að hlusta á það sem ég kalla alvöru tónlist. Þetta tímabil á sér engan skýran endi. Næst vil ég nefna 2001-2005 en þá fór ég að hlusta á Björk Guðmunsdóttur af mikilli alvöru og Radiohead, sem voru þá nýbúnir að senda frá sér Amnesiac. Þriðji vendipunkturinn er þegar ég drekkti mér í Stinu Nordenstam árið 2006 og álíka þunglyndum tónlistarmönnum í kjölfarið. En fjórða og lær-dómsríkasta tímabilið hófst ári seinna þegar ég kynntist fagurkeranum Kjartani Halli. Ekki sér fyrir endann á því.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Allt sem The Divine Comedy og PJ Harvey hafa sent frá sér.
Á hvers konar tónlist var hlustað á þínu heimili? Ég man eftir Shadows, Eric Clapton, Dire Straits, Annie Lennox og fleirum.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsti geisladiskurinn var Time, Love and Tenderness með Michael Bolton. Ég naut þess að hlusta á hann og láta mig dreyma. Höldum því til að haga að þetta var snemma árs 1991 og ég því einungis 13 að verða 14.
Hvaða græjur varstu þá með? Pioneer XD-Z54T. Þær hafa reynst vel og eru enn nothæfar.
Wham! eða Duran? Duran.
Hvað syngurðu í sturtu? Hraustir menn, eins og Karlakór Reykjavíkur og Guðmundur Jónsson fluttu það. Ég næ samt ekki að halda út þessar 16 sek. sem Guðmundur gerir svo laglega milli 1:33 og 1:48. Djók.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjun-um til að koma öllum í stuð? Búkalú með Stuðmönnum.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Ekkert.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Núna væri ég til í að fara til Írlands með Kjartani og hlýða á The Divine Comedy.
Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Mig langaði einu sinni mikið til að geta dansað eins og Michael Jackson. En ég man ekki eftir að mig hafi dreymt um að vera hann.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Ég á tvo diska sem ég get alltaf hlustað á. Annar inniheldur tónlist eftir Yann Tiersen sem hljómaði í kvikmyndinni Amélie en hinn er með lögum eftir Philip Glass úr myndinni The Hours.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.