„Að skrifa ljóð, texta og rapp er eins og sálfræðimeðferð fyrir sjálfan mig“ / INGI SIGÞÓR
Þá er það Ingi Sigþór Gunnarsson sem teikar Tón-lystar-vagninn að þessu sinni. Það er reyndar bannað að teika og því ekki til eftirbreytni. Ingi Sigþór býr í Fellstúninu á Króknum, er árgangur 2000 sem er auðvitað mjög þægilegt ef menn þurfa að gefa upp aldur – svo lengi sem menn vita hvað ár er. „Ég er alfarið alinn upp á Króknum og er sonur Elvu Bjarkar Guðmundsdóttur og Gunnars Braga Sveinssonar,“ segir Ingi. „Ég kann eitthvað smá á gítar en annars treysti ég mest á röddina sem og kunn-áttu mína á hljóðvinnsluforrit.“
Aðspurður um helstu afrek sín á tónlistarsviðinu segir hann: „Ég hugsa að helstu tónlistarafrek mín séu að fá að syngja með vinum mínum á tónleikunum Jólin Heima og svo auðvitað að eiga söngtexta sem sigraði söngkeppni framhaldsskólanna sem Emelíana Lillý fór svo einstaklega vel með.“
Hvað er á döfinni? „Ég gaf út lag föstudaginn 28. júní síðastliðinn og er með meira af tónlist í vinnslu sem ég stefni á að koma út núna á þessu ári.“
Hvaða lag varstu að hlusta á? „Ég var að hlusta á Gullfalleg útgáfa af forljótum náunga eftir Bróðir Svartúlfs.“
Uppáhalds tónlistartímabil? „90s og 2000-2010 er sennilega uppáhaldið mitt en það breytist nokkuð reglulega.“
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Ég hlusta mikið á rapp og hef mikið hlustað á Bróðir Svartúlfs og Coast Contra síðustu daga. Annars hefur tónlistin úr Ávaxtakörfunni einnig verið mikið í spilun hjá mér síðustu vikur.“
Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? „Einmana úr Ávaxtakörfunni, frábært lag og virkilega góður texti sem nær vel til manns.“
Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvað lag tækjuð þið? „Ég væri til í að syngja Stumblin' In með Suzi Quatro. Ég hef hlustað á Smokie síðan ég var lítill, mamma spilaði mikið Smokie í bílnum og ég man mest eftir þessu lagi og hefur alltaf þótt vænt um þetta lag.“
Hvers konar tónlist var hlust-að á á þínu heimili? „Það var alls konar; Geiri, Smokie, Eagles, Bryan Adams, Villi Vill, Il Divo, Santana og Juanes svo eitthvað sé nefnt.“
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? „Mig minnir að fyrsti diskurinn sem ég keypti hafi verið The Marshall Mathers LP2, Eminem diskur en gæti líka hafa verið Shady XV. Það var allavega Eminem diskur minnir mig.“
Hvaða græjur varstu þá með? „Það var tölva, útvarp með spilara og DVD spilari heimilisins.“
Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? „This Is The Life með Amy Macdonald.“
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? „Sama um með Patrik og Danil.“
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Einhver dúndur playlisti með lögum frá 10 áratugnum.“
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Eric Clapton, Eva Cassidy, Beth Hart eða rapp á rólegu nótunum.“
Hvaða Bítlalag hefðir þú viljað hafa samið eða er eitthvað annað lag sem þú hefðir viljað hafa samið? „Það er vont að viðurkenna þetta en ég hef aldrei verið mikill Bítlamaður en ef ég ætti að velja eitt lag þá yrði það sennilega Dont Let Me Down, það er örugglega uppáhalds Bítlalagið mitt. En annars hefði ég viljað semja lagið Vincent með Don McLean. Söngvarinn er eiginlega að syngja til Vincent van Gogh og er að segja honum að hann skilur hvernig honum líður og að hann var í raun bara misskilinn og andlega veikur maður. Virkilega flott lag.“
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Ég færi til Detroit í Bandaríkjunum og tæki Svein Rúnar bróður minn með mér á Eminem tónleika.“
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? „Eminem, Úlfur Úlfur og Jói Pé og Króli.“
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? „Þeir tónlistarmenn sem hafa haft mest áhrif á mig eru mjög margir en þeir sem ég hef mest litið upp til eru sennilega, Arnar og Helgi úr Úlfur Úlfur, Sverrir Bergmann, Haukur Morthens og Björgvin Halldórsson.“
Hvaða plata hefur skipt mestu máli í þínu lífi og hvers vegna? „Ég verð eiginlega að segja allar Eminem plöturnar, Svenni bróðir sýndi mér Eminem þegar ég var sennilega of ungur til að hlusta á mörg af hans lögum en ég féll strax fyrir lögunum hans og flóknu textasmíði. Ég hef mjög gaman af því að skrifa ljóð, texta og rapp. Það er eiginlega eins og sálfræðimeðferð fyrir mig og ég geri það nánast á hverjum degi. Ég vil meina að þær plötur hafi opnað dyr fyrir mig til þess að skrifa niður hugsanir mínar og pælingar og á sama tíma kennt mér að búa til eitthvað úr þeim.“
Sex mest spiluðu lögin í símanum þínum? „Ég er ekki viss hvað er mest spilað hjá mér en ef ég ætti að velja það sem ég held ég hlusti mest á þessa dagana þá er það sennilega, Rosanna með Toto, Houdini með Eminem, Wonderful To-night og River of Tears með Eric Clapton, Einhver með Diljá og Einmana úr Ávaxtakörfunni.“
Elskar að stíga á svið
Hvað geturðu svo sagt les-endum Feykis af nýju lagi? „Nýja lagið sem ég var að gefa út heitir Fyrir þig og er mitt fyrsta lag sem ég gef út, hef þó sungið inn jólalag áður en þetta er fyrsta lagið sem ég gef út sjálfur. Lagið samdi ég að vísu ekki en það er erlendur listamaður sem samdi lagið og gengur undir nafninu Mantra. Ég fann lagið á netinu og um leið og ég heyrði það þá fékk ég viðlagið í hausinn og skrifaði í kjölfarið restina af laginu og keypti lagið. Flott og gott lag þó ég segi sjálfur frá og hvet ég alla til þess að gefa því séns og hlusta á það.“
Ertu nýbyrjaður að smíða lög og texta? „Ég hef samið texta í mörg ár, byrjaði að skrifa rapp þegar ég var 14-15 ára og svo þegar ég byrjaði að syngja að einhverju viti fór ég að prufa mig áfram í að skrifa söngtexta, sem hefur gengið mjög vel. Ég hef hinsvegar ekki smíðað lög mjög lengi, kannski í 4-5 ár, en ég er með nokkur lög sem ég hef samið frá grunni sjálfur og vonandi hef ég mig í að klára þau á næstu mánuðum.“
Er von á fleiri lögum frá þér? „Já klárlega, ég er með nokkur lög sem eru á lokasprettinum og fleiri sem eru í vinnslu. Vonandi get ég gefið út meira á komandi mánuðum.“
Er alltaf jafn gaman að koma fram og syngja og leika? „Að koma fram á sviði er það skemmtilegasta sem ég geri, hvort sem það sé að syngja eða leika. Ég hugsa að Jólin Heima og Litla Hryllingsbúðin standi mest upp hjá mér. Magnað hversu mikið Jólin Heima hafa stækkað með hverju árinu og mig hafði alltaf dreymt um að leika Baldur Snæ í Litlu Hryllingsbúðinni.“
Hafið þið bræður sungið saman frá fæðingu? „Róbert bróðir hefur sungið töluvert lengur en ég. Ég byrjaði ekki fyrr en árið 2017 þegar Róbert fékk mig til að taka þátt í söng-keppni FNV með sér þar sem við tókum Liljuna, síðan þá höfum við ekki stoppað og við bræður sungið saman á fleiri viðburðum en ég get talið upp.
Hvað ertu búinn að taka þátt í mörgum sýningum og sjóum síðustu fimm árin? „Ég hef komið að sennilega öllum leikritum hjá LS síðustu fimm árin að einhverjum hætti hvort sem það sé að leika eða aðstoð við hljóð. Það eru sennilega 6-8 stykki. Önnur sjó hafa verið töluvert fleiri og ég eiginlega get ekki talið þau upp, en svo ég nefni eitthvað þá er það að sjálfsögðu Jólin Heima og nokkrir tónleikar sem Hulda Jónasar hefur staðið fyrir og svo er Græni Salurinn í Bifröst í miklu uppáhaldi hjá mér.
Ertu ekki að gleyma sýning-unum með Nemendafélagi FNV? „Jú! Ég gleymdi þeim alveg en ég hef tekið þátt í 5-6 sýningum í FNV; Bugsy Malone, Grease, Mamma Mia, Footloose, Saturday Night Fever og aðstoðaði svo við hljóð-vinnu í Með Allt á Hreinu. Ég held líka að ég hljóti að eiga metið í einingafjölda eftir öll þessi leikrit þar sem ég fékk líka einingar fyrir tímabilin með Leikfélagi Sauðárkróks. Þær voru minnir mig 30-32,“ segir Ingi Sigþór að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.