Vera Silfrastaðakirkju í útbænum á Króknum útskýrð
Sumum kemur það örugglega spánskt fyrir sjónir að sjá frekar óhrjálega kirkju standa afgirta norðan við Verslun Haraldar Júl í útbænum á Króknum. Heimafólk þekkir hvað til stendur en margur ferðamaðurinn klórar sér kannski í kollinum. Það þótti því við hæfi að setja upp skilti utan á vinnuskúrinn sem byggður hefur verið utan um Silfrastaðakirkju, sem er í viðgerð á Trésmiðjunni Ýr, þar sem saga kirkjunnar er sögð í máli og myndum.
Kirkjan er óvenjuleg að lögun en nógu lítil til að hægt var að lyfta henni af grunni sínum á Silfrastöðum og flytja hana út á Krók. Þetta var gert haustið 2021 en vonast var til að viðgerð tæki ekki lengri tíma en fimm ár en það ræðst allt af því hversu vel gengur að fá styrki í verkefnið.
Það eru sveitarfélagið Skagafjörður og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga sem önnuðust textagerð og stóðu að uppsetningu spjaldanna sem eru um tíu og hálfur metri að lengd og 1,6 m á hæð. Textar eru á íslensku og ensku. Hönnun og myndvinnsla var unnin á Nýprenti en Myndun sá um prentun og frágang. Ljósmyndir koma frá Héraðsskjalasafninu, Jóni Arnari Peturssyni, Drífu Árnadóttur og Óla Arnari.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.