Veitingar að hætti ömmu og mömmu í Áshúsi
Í Áshúsi í Glaumbæ er hægt að næla sér í sígilt og þjóðlegt bakkelsi í huggulegu umhverfi sem spilar stórt hlutverk í safnheimsókninni og felst í að gefa gestum safnsins tækifæri til að bragða á og njóta veitinga að hætti ömmu og mömmu og upplifa stemningu liðins tíma, eins og segir á heimasíðu safnsins. Það er Byggðasafn Skagfirðinga sem er rekstraraðili en Berglind Róbertsdóttir frá Jaðri er verkefnastjóri matarupplifunar í Áshúsi.
Að sögn Berglindar Þorsteinsdóttur safnstjóra þá háttar þannig til að þar sem kaffihúsið er rekið af safninu er það hluti af þjónustu við safngesti. „Við minnum því á ársmiðana til að heimsækja kaffihúsið og safnið, þ.e. þeir sem eru með lögheimili í Skagafirði greiða bara einu sinni fyrir aðgangsmiða og geta því heimsótt safnið, kaffihúsið og viðburði á vegum safnsins eins oft og þeim lystir.“
Það þarf þó að sjálfsögðu alltaf að borga fyrir bakkelsið, kortið dugar ekki á það. Hægt er að kaupa stakt bakkelsi og má þá m.a. velja um kleinur, ástarpunga, pönnukökur, jólaköku, hnallþóru, lagtertur, steikt brauð með tilheyrandi eða bara flatköku með hangikjöti. Einfaldast er að skella sér í kaffihlaðborð og gómsæta súpu dagsins.
Kaffistofan er opin frá kl. 10:00 til 17:30 alla daga í sumar eða alveg til 20. september. Safnið er opið frá 10-18 alla daga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.