Um 80 félagsmenn Kjalar í Skagafirði í verkfalli
Fundi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga hjá Ríkissáttasemjara lauk á öðrum tímanum í nótt án niðurstöðu. Það þýðir að víðtækar verkfallsaðgerðir BSRB í 29 sveitarfélögum hófust í morgun, mánudaginn 5. júní. Verkföllin ná m.a. til starfsfólks í leikskólum, sundlaugum, íþróttamannvirkjum, þjónustumiðstöðvum, bæjarskrifstofum, áhaldahúsum og höfnum í 29 sveitarfélögum og er Skagafjörður eitt þeirra.
Misjafnt er eftir starfsstöðvum hversu lengi verkfallið mun vara, segir á heimasíðu Skagafjarðar en verkfallið nær til félagsmanna Kjalar og mun því hluti starfsfólks sveitarfélagsins leggja niður störf á meðan verkfalli stendur.
Félagsmenn Kjalar á fyrrgreindum starfsstöðvum eru um 80 talsins, svo ljóst er að verkfallsaðgerðirnar munu hafa víðtæk áhrif á þá þjónustu sem umræddar stofnanir sveitarfélagsins veita íbúum Skagafjarðar. Misjafnt verður hvernig áhrifa gætir, en í flestum tilvikum er um að ræða styttri opnunartíma og/eða skerta þjónustu, sem sjá má hér fyrir neðan:
Sundlaugar
Frá mánudeginum 5. júní 2023 og er ótímabundið.
Sundlaugin á Sauðárkróki og í Varmahlíð verða lokaðar.
Sundlaugin í Hofsós verður með takmarkaðan opnunartíma, sem verður auglýstur sérstaklega.
Nánari upplýsingar veitir Þorvaldur Gröndal, frístundastjóri; valdi@skagafjordur.is.
Leikskólar
Frá mánudeginum 5. júní 2023 til og með föstudeginum 16. júní 2023.
Leikskólastjórar munu hafa samband við foreldra og forráðamenn varðandi útfærslu skólastarfs en gera má ráð fyrir því að börn þurfi að vera heima að einhverju leyti á verkfallsdögum.
Þjónustumiðstöð
Frá mánudeginum 5. júní 2023 til og með föstudeginum 16. júní 2023.
Hægt að senda almenn erindi í tölvupósti á skagafjordur@skagafjordur.is og þeim verður komið í réttan farveg.
Hægt er að nálgast netföng starfsfólks á heimasíðu sveitarfélagsins hér.
Skagafjarðarveitur
Frá mánudeginum 5. júní 2023 til og með miðvikudeginum 5. júlí 2023.
Afgreiðsla og sími verður lokuð á meðan verkfalli stendur.
Hægt er að senda almenn erindi í tölvupósti á skagafjordur@skagafjordur.is og þeim verður komið í réttan farveg.
Hægt er að nálgast netföng starfsfólks Skagafjarðarveitna hér og hér.
Ráðhús
Frá mánudeginum 5. júní 2023 til og með miðvikudeginum 5. júlí 2023.
Verkfall BSRB í ráðhúsi mun helst hafa áhrif á afgreiðslu, bókhald, innheimtu og launadeild.
Afgreiðsla og sími verða lokuð á meðan á verkfalli stendur.
Hægt er að senda almenn erindi í tölvupósti á skagafjordur@skagafjordur.is og þeim verður komið í réttan farveg.
Hægt er að nálgast netföng starfsfólks á fjölskyldusviði hér, starfsfólk á stjórnsýslu- og fjármálasviði hér og skipulags- og byggingarfulltrúa hér.
Þegar samningar nást tekur við hefðbundinn opnunartími á ný.
Í heildina taka um 2500 manns þátt í aðgerðunum sem eru umfangsmiklar og munu raska starfsemi sveitarfélaga og lífi fólks verulega. Áhrif verkfallanna mun gæta á að minnsta kosti 150 starfsstöðvum um allt land. Ekki er gripið til verkfallanna af léttúð heldur til að knýja fram kröfur gagnvart sveitarfélögum landsins sem neita að leiðrétta launamisrétti gagnvart starfsfólki sínu.
„Ábyrgð okkar allra er mikil og hefur BSRB lagt fram fjölmargar tillögur til að ná sátt. Þótt eitthvað hafi þokast í samningsátt á samningafundum síðustu daga neitar Samband íslenskra sveitarfélaga enn að koma til móts við réttláta kröfu okkar um sömu laun fyrir sömu störf. Það eru gríðarleg vonbrigði að við höfum ekki náð lengra og ljóst að mikill þungi færist í aðgerðir okkar frá og með morgundeginum og þar til lausn fæst í málið,” sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir eftir fundinn í gær.
Hægt er að skoða yfirlit yfir aðgerðir HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.