Um 700 manns heimsóttu Glaumbæ á 75 ára afmælishátíð

Safnasvæði Glaumbæjar iðaði af lífi á afmælishátið sl. mánudag. Mynd af Facebooksíðu Byggðasafns Skagfirðinga.
Safnasvæði Glaumbæjar iðaði af lífi á afmælishátið sl. mánudag. Mynd af Facebooksíðu Byggðasafns Skagfirðinga.

Í tilefni 75 ára afmælis Byggðasafns Skagfirðinga var boðið til afmælishátíðar með skemmtun og fróðleik í Glaumbæ sl. mánudag. Mikið líf og fjör var á safnsvæðinu, áhugaverðar sýningar og fjölbreytt og skemmtileg dagskrá fyrir alla aldurhópa.

Smáframleiðendur buðu upp á gómsætar veitingar, ungum gestum bauðst að fara á hestbak og prúðbúnar Pilsaþytskonur spókuðu sig á svæðinu. Þá spann Margrét á Mælifellsá úr hrosshári við kveðskap Hilmu Bakken í Kvæðamannafélaginu Gná og Helgi Sigurðsson sýndi handtök við torfhleðslu, Bjössi Sighvatz, Jón Egill og Guðmundur Stefán léku listir sínar við eldsmíði. Eigendur íslenskra fjárhunda létu sig ekki vanta frekar en Dansfélagið Vefarinn sem steig á stokk og tók nokkur létt dansspor og Skagfirski kammerkórinn sem söng fyrir gesti.

Í tilefni þessara tímamóta voru þrjár nýjar sýningaropnanir:
Byggðasafn Skagfirðinga í 75 ár – afmælissýning í Áshúsi
Hér stóð bær – Skráning Byggðasafnsins á skagfirskum torfhúsum í Gilsstofu
Saga Gilsstofunnar og Briemsstofa.

„Við erum orðlaus og þakklát öllum þeim fjölda sem lagði leið sína á safnið en um 700 manns heimsóttu Glaumbæ og fögnuðu tímamótunum með okkur, þar af 64 sem tóku þátt með beinum hætti til að gera daginn sem eftirminnilegastan fyrir afmælisgesti. Þeim færum við sérstakar þakkir; Dansfélagið Vefarinn, eldsmiðirnir; Björn J. Sighvatz, Guðmundur Stefán Sigurðarson og Jón Egill Indriðason, Fornverk, Kvæðamannafélagið Gná, Margrét Ingvarsdóttir frá Ytra-Mælifelli, Pilsaþytur í Skagafirði, Skagfirski Kammerkórinn, Syðra-Skörðugil, Lýtingsstaðir og fleiri eigendur íslenskra hunda í Skagafirði, Smáframleiðendur í Skagafirði; Birkihlíð Kjötvinnsla, Breiðargerði, Ísponica og Rúnalist. Loks færum við Berglindi Gunnarsdóttur kærar þakkir fyrir snilldar viðburðastjórnun!“ segir á Facebook-síðu Byggðasafnsins en þar er hægt að nálgast fjölda mynda frá deginum. Sjá HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir