Ultimo-appið orðið aðgengilegt

Ultimo er orðið aðgengilegt. Mynd: Annika Noack
Ultimo er orðið aðgengilegt. Mynd: Annika Noack

Eins og Feykir greindi frá í júní sigraði Jóhanna María Grétarsdóttir Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2023 með hugmyndinni „Ultimo”. Jóhanna María býr á Sauðárkróki og foreldrar hennar eru Grétar Karlsson og Annika Noack.

Verðlaunin voru afhent í útskrift 6. bekkjar og við það tækifæri kynnti Jóhanna María hugmyndina. „Ultimo – food saver“ er app sem hjálpar til með að minnka matarsóun á heimilum. Með appinu er hægt að skrá matvæli t.d. úr kæli, búri eða frysti ásamt upplýsingum um hvenær þau renna út. „Ultimo – food saver“ heldur þannig utan um öll matvæli sem til eru á heimilinu og sendir tilkynningar þegar eitthvað er við það að renna út.

Í sumar hafa Jóhanna María og foreldrar hennar með mikilli hjálp frá Dr. Sebastian Breuers, hannað og forritað app sem er hægt að hala niður fyrir Android síma.

Það vildi svo heppilega til að Sebastian, sem er besti vinur mömmu Jóhönnu Maríu og eyðir sumarfríunum sínum ár hvert hjá fjölskyldunni hér á Sauðárkróki, er einnig forritari og var tilbúinn til að hjálpa til við að smíða appið. Án hans hjálpar hefði appið ekki orðið að veruleika.

Þar eru mörg atriði sem þurfti að hugsa um. Jóhanna María og móðir hennar hönnuðu útlitið, ákváðu hvaða aðgerðir áttu að standa til boða og sömdu textann fyrir notendaviðmótið. Sebastian og faðir Jóhönnu Maríu sinntu forritun og ýmsum tæknilegum atriðum sem þurfti að hafa í huga við að gera appið aðgengilegt á netinu.

Þrátt fyrir því að appið sé tilbúið og orðið aðgengilegt á netinu, hefur Jóhanna María fleiri hugmyndir um hvernig hægt er að gera appið enn betra. Það er því enn verið að vinna að endurbótum til að gera notendaupplifunina betri, bæta við appið í AppStore fyrir Apple tæki og vonandi verður hægt að skanna inn upplýsingar matvælanna í framtíðinni.

Til að vera viss um að finna appið í Google Play Store fyrir Android er hægt að leita að „ultimojmgn“.

Dr. Sebastian Breuers og Jóhanna María Grétarsdóttir. Mynd:  Annika Noack

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir