Tónleikar í gamla bænum á Aðalgötunni
Næstkomandi laugardagskvöld verður Aðalgatan á Sauðárkróki færð í betri stílinn þegar lokað verður fyrir bílaumferð og heljarinnar sviði slegið upp. Á sviðinu munu fara fram tónleikar sem hefjast klukkan 19:30, ásamt því að fyrirtæki í götunni munu hafa dyrnar sínar opnar fram á kvöld þar sem fólk getur rölt á milli verslana.
Þeir sem koma fram eru tónlistarmaðurinn Atli, Lalli töframaður, Una Torfa og Danssveit Dósa.
Sviðið verður staðsett norðan við Kaffi Krók og Grand-Inn, og Aðalgatan verður lokuð frá kirkjutorgi að Kambastíg.
Feykir hafði samband við Adam Smára og spurði hana nánar út í viðburðinn, en hann ásamt Sigga Dodda og Viggó Jónssyni eru skipuleggjendur tónleikana.
„Það er búið að blunda í okkur dálítinn tíma að halda tónleika eða einhverja bæjarhátíð á Króknum. Við vorum upprunalega komnir á það að fresta því um eitt ár að gera eitthvað en ákváðum að kýla á það halda tónleika núna á laugardaginn með stuttum fyrirvara.“
Þessa helgi fer fram hið árlega stelpumót í fótbolta, ÓB-mótið, og er von á rúmlega 500 fótboltastelpum í bæinn þessa helgi ásamt tilheyrandi systkinum, foreldrum, ömmum og öfum. Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Tindastól en þeir koma í staðinn fyrir kvöldvöku mótsins.
„Það sem við erum að horfa á aðallega í kringum þessa helgi er að gera upplifun fyrir bæjarbúa og mótsgesti, það er enginn smá fjöldi sem kemur í bæinn í kringum þetta mót.“ Segir Adam.
Er planið að gera þessa tónleika að árlegum viðburði?
„Það er klárlega á stefnuskránni að gera þetta árlega og byggja þetta meira upp, við ætlum að byrja smátt og leyfa þessu síðan að vaxa í framtíðinni.“
Lalli Töframaður mun ekki bara koma fram á tónleikunum, heldur verður hann á þvælingi um íþróttasvæðið eftir hádegi á Laugardaginn og líklegur til að bregða á leik.
Adam vill að lokum koma þökkum til fyrirtækja í bænum, en tónleikarnir eru styrktir af þeim.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.