Sveitasæla um helgina - Fjölskyldustemning og almenn skagfirsk gleði

Nýtt merki Sveitasælu eftir ÓLÍNA Design
Nýtt merki Sveitasælu eftir ÓLÍNA Design

Sveitasælan, landbúnaðar og bændahátíð í Skagafirði verður haldin laugardaginn 19. ágúst nk. frá klukkan 10:00 til 17:00 og fer venju samkvæmt fram í Reiðhöllinni Svaðastöðum. Að sögn Sigurðar Bjarna Rafnssonar má búast við skemmtilegri fjölskyldustemningu og almennri skagfirskri gleði þar sem landbúnaðurinn verður í aðalhlutverki.

Sigurður Bjarni er verkefnastjóri Sveitasælunnar ásamt Sigurlínu Erlu Magnúsdóttur, formanni Flugu, og að sögn hans hefur skipulagið gengið vonum framar. „Fólk hefur verið almennt jákvætt fyrir því að vera með, bæði fyrirtæki og einstaklingar,“ segir Sigurður.

Vigdís Häsler mun setja sýninguna formlega klukkan 11:00 og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitastjóri Skagafjarðar, mun ávarpa gesti ásamt því að flutt verða tónlistaratriði. Hin feikivinsæla íþrótt, hrútaþukl, verður síðan háð klukkan 12:00 og klukkan 13:00 mun Leikfélag Sauðárkróks skemmta gestum á öllum aldri. Í kjölfarið mun Hvolpasveitin góða mæta á svæðið og teymt verður undir börnum klukkan 14:00.

Verðlaunaafhending fyrir Hrútaþukl mun fara fram klukkan 14:30 og klukkan 15:00 verður vígaleg kálfasýning. Sýningunni lýkur svo klukkan 17:00 en dagskráin í tengslum við hana verður þá hvergi nærri búin.

Sérstök Sveitasælu tilboð verða á veitingastöðum Sauðárkróks og á sunnudaginn verða opin bú í Skagafirði auk þess sem bændamarkaður verður á Stórhóli í tilefni af „Beint frá býli“ deginum.

Að lokum vilja skipuleggjendur koma því á framfæri að ekki er of seint að skrá sig til leiks til að vera með bás á sýningunni.

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir