Sveitarstjóri lengi verið tilbúinn með skófluna
Í grein sem Sigurjón Þórðarson, Flokki fólksins, birti á Feyki.is í gær kom fram að hann hafði á Alþingi lagt fram fyrirspurn um stöðu endurbóta og viðbyggingar við Safnahúsið á Sauðárkróki. Svör ráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, voru á þá leið að Sigurjón taldi líklegt að Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, gæti farið að gera klárt fyrir skóflustungu. Feykir hafði samband við Sigfús Inga og spurði hvort hann væri farinn að leita að skóflunni.
„Sveitarstjórinn er búinn að vera tilbúinn með skófluna í nokkuð langan tíma og er bjartsýnn miðað við nýjustu fréttir og greinaskrif í Feyki um að senn líði að undirritun samnings við ríkið um Menningarhús þar sem fjárheimildir og framkvæmdatími eru fest niður,“ var svar Sigfúsar Inga við spurningunni.
Leyfir fjárhagsstaða Skagafjarðar að farið verði í framkvæmdir á kjörtímabilinu? „Sveitarfélagið hefur gert ráð fyrir upphafi verkefnisins, þ.e. hönnun/hönnunarsamkeppni og útboðsgögnum, í fjárhagsáætlunum undanfarin ár og svo er einnig á þessu ári. Framhaldið ræðst af áfangaskiptingu og því fjármagni sem varið verður til verksins en hlutfallið sem kemur til framkvæmdarinnar er 60% frá ríki og 40% frá sveitarfélaginu. Fjárhagsstaða Skagafjarðar er ágæt og uppbygging menningarhúss gerir okkur það einnig kleift að koma starfsemi og varðveislurýmum á einn stað sem stórbætir faglega og rekstrarlega umsýslu ákveðinna verkefna og losar um eignir annars staðar.“
Hver eru næstu skref í því að koma upp Menningarhúsi? „Næstu skref eru að ríkið ljúki sínum hluta áætlanagerðar og rammi inn í samning sem ritað verður undir á milli þess og sveitarfélagsins. Í framhaldinu verður hafist handa við hönnunarsamkeppni, lokið við endurskoðun deiliskipulags fyrir svæðið og svo ráðist í útboð og framkvæmdir þegar þeim áföngum er náð,“ sagði Sigfús Ingi að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.