„Sumum finnst við agaleg þjóð að borða þessi krútt“

Retro Mathús í Plássinu á Hofsósi. MYNDIR: ÓAB
Retro Mathús í Plássinu á Hofsósi. MYNDIR: ÓAB

Á Hofsósi er snotur veitingastaður sem kallast Retro Mathús og stendur í Plássinu – nú eða Kvosinni eða niðri í Stað, svona eftir því hvaða Hofsósingur er spurður. Rétt hjá rennur Hofsáin til sjávar og í þessu lognríka umhverfi myndast oft hitapottur yfir sumarið. Það eru Magnús Eyjólfsson og Guðrún Sonja Birgisdóttir sem eiga og reka Retro Mathús en þar eru um tíu starfsmenn yfir háannatímann og þjónustan hressileg og lipur.

Það kennir ýmissra grasa á matseðlinum og alla daga eru spennandi réttir í boði sem poppa upp á töfluna en eru ekki á matseðli. Þar má til dæmis nefna folaldakjöt með bernais, bleikju eða pestófisk svo eitthvað sé nefnt. Annars eru pizzurnar og djúpsteikti fiskurinn í öndvegi og þeir sem kjósa vegan geta fengið eitthvað fyrir sinn snúð. Að sjálfsögðu er einnig matseðill fyrir börn og svo svíkur súkkulaðidúllan ekki sem eftirréttur.

Að sögn Guðrúnar Sonju þá er Retro Mathús alla jafna lokað yfir vetrartímann sem hefst 30. september en þó kemur fyrir að skellt er í sjóðheit pizzukvöld. Nú er opið alla daga frá 12-21, nema á mánudögum, þá er opið frá 18-21. Nú styttist hins vegar í haustið og kvöldopnun hefst þann 21. ágúst og stendur út september. „30. september verður kótilettukvöld og dansað svolítið í Höfðaborg,“ segir Guðrún en þá er Laufskála-réttarhelgi í Skagafirði og væntanlega heilmikið húllumhæ um víðan völl.

Eruð þið að vinna við eitthvað annað yfir veturinn? „Magnús vinnur sjálfstætt við múrverk og flísalagnir og ég á það til að sjást í Vörumiðlun.“

Hefur verið nóg að gera í sumar? „Heldur betur, hér eru bara lúxusvandamál,“ segir Guðrún Sonja og hlær.

Er einhver réttur sem er Retro Mathús special? „Við erum með pizzu sem heitir Retro Special, beikon og bláberjasulta, sem kemur skemmtilega á óvart.“

Eru útlendingarnir spenntir fyrir folaldakjötinu? „Flestir já, sumum finnst við agaleg þjóð að borða þessi krútt,“ segir Guðrún Sonja að lokum.

Í lokin má geta þess að húsið sem hýsir Retro Mathús kallast Baldurshagi, „...reist árið 1921 af Hinum sameinuðu íslensku verslunum sem áttu þá Hofsóskaupstað,“ segir í Byggðasögu Skag-firðinga. Mögulega stóð húsið þó áður í Grafarósi rétt sunnan Hofsóss. Kaupfélag Austur-Skag-firðinga eignaðist Baldurshaga á þjóðhátíðardaginn 1947 og var það í fyrstu notað sem hótel á sumrin en barnaskóli á veturna. Baldurshagi fékk andlitslyftingu í upphafi tíunda áratugarins og þar hefur síðan verið veitingaþjónusta. Í næsta nágrenni við Baldurshaga er eitt frægasta hús landsins, tvískipta húsið Braut I og Braut II, sem margir sem kíkja í Plássið smella mynd af. Þá eru Pakkhúsið og Konungsverslunarhúsið ekki síður merkileg og handan við Hofsána er Vestur-farasetrið og hin snotra Hofsóshöfn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir