Skagfirskur smellur kominn með yfir 100 milljón spilanir á Spotify

Skjáskot af Spotify sem sýnir lagið Dead Eyez komið yfir 100 milljón spilanir. Þar fyrir utan er spilun á YouTube og öðrum tónlistarveitum og niðurhal á iTunes. Þetta er bara alveg geggjað!
Skjáskot af Spotify sem sýnir lagið Dead Eyez komið yfir 100 milljón spilanir. Þar fyrir utan er spilun á YouTube og öðrum tónlistarveitum og niðurhal á iTunes. Þetta er bara alveg geggjað!

Það eru ekki margir íslenskir tónlistarmenn sem hafa náð þeim árangri að eiga lög á tónlistarveitum sem hafa náð yfir 100 milljón spilunum. Spotify er væntanlega sú veita sem flestir tónlistarunnendur leita í til að svala sínum tónlistarþorsta. Nú á dögunum gerðist það að skagfirski tónlistarmaðurinn Ouse komst í fámennan hóp þeirra Íslendinga sem eiga lag sem hlustað hefur verið á oftar en hundrað milljón sinnum á Spotify. Þetta er lagið Dead Eyez sem hann flutti ásamt kanadíska rapparanum Powfu og Promoting Sounds.

Eins og Feykir hefur skýrt frá nokkrum sinnum síðustu árin þá býr Ouse í Suðurgötunni á Króknum, heitir Ásgeir Bragi og er Ægisson. Fyrir röð tilviljana fékk tónlist hans athygli í Chicago og undur internetsins tóku í taumana. Þetta var fyrir um fimm árum og síðan er Ouse kominn á samning hjá útgáfufyrirtæki í Bandaríkjunum og nú hefur hans vinsælasta lag, Dead Eyez, náð 100 milljón spilana markinu. Þá hefur lagið Lovemark skriðið yfir 40 milljón spilanir en það kom út 2018 en Dead Eyez ári síðar.

Ouse hefur frá árinu 2018 sent frá sér helling af smáskífum, EP-plötu og þrjár breiðskífur ef Feyki skjátlast ekki, þar af eina með íslenskum textum. Á síðasta ári kom út breiðskífan Crying in Camo sem innihélt 16 lög. Þrátt fyrir mikla útgáfu og talsverða spilun í Bandaríkjunum er Ouse sennilega nær algjörlega óþekktur á Íslandi og fær litla spilun í útvarpi hér á Fróni.

Kaleo og OMAM í sérflokki

Þegar kíkt er yfir afrek Íslendinga á Spotify þá eru hljómsveitirnar Kaleo og Of Monsters and Men í sérflokki en þeirra vinsælustu lög nálgast milljarð spilana. Það má sjá að Eurovision og TikTok smellur Daða og Gagnamagnsins, Think About Things, er að skríða í 130 milljón spilanir. Björk á ekki lag sem náð hefur 100 milljón spilunum á Spotify en hún var að vísu vinsælust fyrir tíma Spottans. Annar tónlistarmaður héðan af Norðurlandi vestra hefur gert það gott erlendis en mest spilaða lag Ásgeirs Trausta er King and Cross (Leyndarmál) sem er að nálgast 60 milljón spilanir.

Margt frábært íslenskt tónlistarfólk fær ekki mikla hlustun utan landssteinanna og þannig má til dæmis nefna að mest spilaða laga Bubba er Rómeó og Júlía sem hefur verið spilað 3,5 milljón sinnum á Spotify og lag Sálarinnar, Hjá þér, er með rétt rúmlega 2,1 milljón spilana. Að eiga lag í Eurovision er ekki endilega ávísun á mikla spilun en lag Hatara, Hatrið mun sigra, er þó komið í rúmlega 10,4 milljónir spilana á Spottanum.

- - - - -
Hér er hlekkur á Dead Eyez t
extamyndband á YouTube >

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir