Skagfirsk kona lést af völdum nóróveirusýkingar
Sagt var frá því í fjölmiðlum að kona á níræðisaldri hafi látist á sjúkrahúsinu á Akureyri um helgina eftir að hafa sýkst af nóróveirunni í ferð skagfirskra kvenna austur á land. Nóróveirusýking gerði vart við sig á hóteli sem hópurinn dvaldi á á Austurlandi.
Tveir í hópnum voru lagðir inn á sjúkrahúsið á Akureyri alvarlega veikir en samkvæmt frétt á ruv.is þá voru þrír lagðir inn á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Auk skagfirsku kvennanna þá kom upp smit í 40-50 manna hópi erlendra ferðamanna sem dvaldi á hótelinu og þá munu einhverjir starfsmanna þess hafa veikst. Haft var eftir Erni Ragnarssyni, framkvæmdastjóra lækninga við HSN, að fólkið sé óðum að ná sér en ekki væri ljóst hversu margir hefðu smitast, einkenni hafi verið mismikil og erfitt að rekja uppruna sýkingarinnar.
Í kjölfarið á veikindunum var veitingastað hótelsins lokað til að takmarka samgang og hótelið sótthreinsað.
Í frétt á Austurfrétt í morgun er sagt að talið sé að veiran hafi borist inn á hótelið með gestum sem hafi síðan smitað aðra þar. Nóróveiran er skæð magapest sem veldur uppköstum og niðurgangi auk þess sem henni geta fylgt frekari kvillar, svo sem hiti og höfuðverkur.
Heimildir: mbl.is, ruv.is og austurfréttir.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.