Samþykkt að hafna tilboði um kaup á húsi Bjarna Har

Verslun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki. MYND: ÓAB
Verslun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki. MYND: ÓAB

Á fundi byggðarráðs Skagafjarðar sl. 28. júní lá fyrir boð erfingja Bjarna Haraldssonar, kaupmanns á Sauðárkróki, til Skagafjarðar um að kaupa fasteignina Aðalgötu 22 fyrir söluverðið 120 milljónir króna.

Hafði byggðarráðið látið kanna formlegt verðmat fasteignarinnar og samkvæmt því er áætlað söluverð 93 milljónir króna. Í fundargerð fundarins segir að ekki sé augljóst hvaða hlutverki fasteignin gæti þjónað í eigu sveitarfélagsins en viðbúið að opinbert hlutverk myndi kalla á verulega kostnaðarsamar breytingar og lagfæringar á aðgengi. Þá er húsið sem byggt er árið 1930 metið með miðlungs varðveislugildi í samantekt um verndarsvæði í byggð, sem unnið var fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð árið 2018, og byggir á heimildakönnun, fornleifaskráningu og húsakönnun fyrir gamla bæinn á Sauðárkróki.

Jafnframt liggur fyrir að húsið, verslun og íbúð, eru ekki friðuð og á það við um bæði ytra byrði og innréttingar, svo sem staðfest hefur verið af Minjastofnun Íslands. Á þeim forsendum samþykkir byggðarráð að hafna tilboðinu. /SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir