Rostungur í smábátahöfninni á Sauðárkróki

Þeir eru engin smásmíði rostungarnir en Atlantshafsbrimlarnir eru um 3 metrar á lengd og vega 800 til 1000 kg en urturnar um 2,5 metrar og vega 600 til 800 kg. Myndir: PF.
Þeir eru engin smásmíði rostungarnir en Atlantshafsbrimlarnir eru um 3 metrar á lengd og vega 800 til 1000 kg en urturnar um 2,5 metrar og vega 600 til 800 kg. Myndir: PF.

Rétt fyrir miðnætti barst lögreglunni á Norðurlandi vestra tilkynning um að rostungur flatmagaði á einni flotbryggjunni í smábátahöfninni á Sauðárkróki. Hefur hann verið hinn rólegasti og látið lítið fyrir sér fara þrátt fyrir forvitna vegfarendur sem standa álengdar og virða þennan sjaldgæfa gest fyrir sér.

Lögreglan brást skjótt við ábendingunni og girti flotbryggjuna af til að hefta för forvitinna sem hugsanlega gætu farið sér að voða með því að nálgast dýrið um of. Tjáði lögreglan blaðamanni að vinna ætti eftir ákveðnu ferli þegar svona aðstæður kæmu upp, hafa m.a. samband við ýmsa aðila og stofnanir, en illa hafi gengið enda komið miðnætti.

Einn bátseigandi sem Feykir talaði við vonaðist til þess að dýrið héldi á brott þegar það hefði hvílt sig enda hætta á að það valdi usla ef það reyndi að koma sér í einhverja bátanna og gæti mögulega skemmt.

Það var engu líkara en skepnan stóra og mikla væri að taka sér smá fegrunarblund, hreyfði sig lítið fyrir utan að reisa sig annað slagið upp við dogg. Hvort skepnan verði á sama stað í fyrramálið er ómögulegt að segja til um en allir eru hvattir til að fara varlega.

Rostungar við Ísland

Á Wikipedia segir að Atlantshafsbrimlarnir séu um þrír metrar á lengd og vega 800 til 1000 kg en urturnar um 2,5 metrar og vega 600 til 800 kg. „Rostungar eru nú á tímum sjaldgæfir flækingar við Íslandsstrendur. Talsverðar beinaleifar rostunga hafa þó fundist á Íslandi, einkum á Vesturlandi. Sýnt er því að rostungar voru tíðir flækingar við strendur Íslands allt fram á 19. öld, þó aðallega á Vestfjörðum, Snæfellsnesi og við sunnanverðan Faxaflóa.
Engar ritaðar heimildir eru til um rostunga eða rostungaveiðar á landnámsöld. Frásagnir af komum rostunga hingað virðast síðan aðeins heyra til undantekninga. Hins vegar eru allnokkur örnefni sem benda til þess að rostungar hafi ekki verið mjög sjaldgæf sjón hér við land fyrr á öldum. Rostungur var í upphafi Íslandsbyggðar nefndur rosmhvalur og eru Romshvalanes eða Rosmhvalanes á fleiri en einum stað og þar að auki eru nokkur Hvallátur og örnefnið Urthvalafjörður sem talið er að eigi við rostunga en ekki hvali.“

 

Posted by Páll Friðriksson on Fimmtudagur, 29. júní 2023

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir