Ófærð á vegum og leik frestað á Stykkishólmi
Þriðju helgina í röð er leiðindaveður á landinu með erfiðri færð. Nú um klukkan eitt í dag voru Öxnadalsheiði og vegurinn yfir Þverárfjall lokaðir vegna óveðurs og víða skafrenningur og hvassviðri. Af þessum sökum hefur leik kvennaliða Snæfells og Tindastóls, í fyrstu umferð í úrslitakeppninni um sæti í efstu deild, verið frestað um sólarhring og verður leikinn annað kvöld.
Veðurstofan gerir ráð fyrir norðaustan 13-20 m/s á Ströndum og Norðurlandi vestra í dag en 5-13 annað kvöld. Él eða snjókoma á annesjum og austantil. Frost 0 til 5 stig en frostlaust sums staðar yfir hádaginn. Síðan er gert ráð fyrir stilltara og hlýrra veðri um og upp úr miðri viku og á fimmtudeginum er spáð rigningu en gæti snjóað á fjallvegum.
Eitthvað virðist vorið þó vera tvístígandi því á föstudeginum er síðan gert ráð fyrir slyddu eða snjókomu og enn hvessir þegar liður að helginni. Við skulum vona að þetta verði ekki uppskriftin fyrir sumarið.
Það er því vissara fyrir vegfarendur að kynna sér veður og færð áður en haldið verður út á þjóðvegina í dag og á morgun.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.