Minnisvarði um örlög séra Odds og Solveigar afhjúpaður

Minnisvarðinn afhjúpaður. Agnar sviptir dúknum af verkinu. Gísli vígslubiskup stendur hjá. MYNDIR: GUNNAR RÖGNVALDSSON
Minnisvarðinn afhjúpaður. Agnar sviptir dúknum af verkinu. Gísli vígslubiskup stendur hjá. MYNDIR: GUNNAR RÖGNVALDSSON

Frá því Agnar Gunnarsson flutti í Miklabæ í Blönduhlíð fyrir tæplega fjörtíu árum hafa honum verið hugleikin hin dapurlegu örlög sr. Odds og Solveigar. Agnar segir söguna af þeim hafa á sér þjóðsagnablæ, sem hefur lifað allt frá síðari hluta 18.aldar. Agnari langaði að minningu þeirra yrði haldið á lofti inn í komandi tíma og hefur af því tilefni látið gera minnisvarða sem vígður var við hátíðlega athöfn laugardaginn 27. apríl.

Sr. Dalla Þórðardóttir, fyrrverandi sóknarprestur á Miklabæ, og Gísli Gunnarsson, vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal, komu að athöfninni, Páll Dagbjartsson, Hinrik Már Jónsson og Agnar sjálfur lásu kvæði Einars Benediktssonar um hvarf séra Odds. Kirkjukórinn söng og þeir Jóel Agnarsson og Sindri Rögnvaldsson sungu einsöng með kórnum. Barnabörn Agnars og Döllu, þau Freyja og Frosti, afhjúpuðu minnisvarðann sem sr. Gísli blessaði. Á eftir var öllum gestum boðið að þiggja veitingar í safnaðarheimili kirkjunnar.

Agnar fékk góða aðstoð við framkvæmdina þó framtakið sé hans. Steininn fékk hann hjá Víðimelsbræðrum, flutningur og niðursetning á honum var í höndum Einars á Kúskerpi en Þorkell á Víðivöllum útbjó undirstöðurnar. Fyrirmyndina skar Geir Eyjólfsson í stálplötu eftir ljósmynd af Ingimari Jónssyni frá Flugumýri á stóðhestinum Brandvetti frá Mikla-bæ. Pípuhatti var skotið á koll-inn á Ingimari fyrir útskurðinn.

Skjöldurinn var steyptur í Kópavogi og að síðustu var það Jónsi í Miðhúsum sem sá um að festa skjöld og plötur á steininn. Það var margt um manninn og gleði með þetta frábæra framtak hjá bóndanum á Miklabæ.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir