„Mikil tækifæri í áframhaldandi starfsemi Háskólans á Hólum“

Hluti af húsnæði Háskólans á Hólum. MYND: ÓAB
Hluti af húsnæði Háskólans á Hólum. MYND: ÓAB

Í gær undirrituðu Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, viljayfirlýsingu um að hefja formlegar viðræður um aukið samstarf og hugsanlega sameiningu Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. „Bæði HVIN ráðuneytið [Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið] sem og Háskóli Íslands sjá mikil tækifæri í áframhaldandi starfsemi Háskólans á Hólum í Skagafirði,“ segir m.a. í viljayfirlýsingu, sem undirrituð er af Háskólanum á Hólum, Háskóla Íslands og ráðuneyti háskólamála.

Hér að neðan má lesa fréttatilkynningu sem Feykir fékk senda í dag frá Háskólanum á Hólum. Millifyrirsagnir eru Feykis:

Undirritun viljayfirlýsingar um aukið samstarf og mögulega sameiningu Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands

Í gegnum tíðina hefur Háskólinn á Hólum og Háskóli Íslands átt í farsælu samstarfi í rannsóknum og kennslu. Til að efla enn frekar samstarfið með gæði rannsókna og kennslu að markmiði efndi HVIN ráðuneytið til vinnustofu með fulltrúum Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands þann 5. júní sl. Á vinnustofunni var farið yfir tækifæri og hindranir sem fælust í enn frekara samstarfi eða sameiningu skólanna tveggja. Fyrir utan fulltrúa ráðuneytisins og Háskóla Íslands, tóku rektor og framkvæmdastjóri Háskólans á Hólum og fulltrúar háskólaráðs þátt í vinnustofunni, sem og sveitarstjóri Skagafjarðar, Sigfús Ingi Sigfússon.

Niðurstaða samtalsins var að mörg tækifæri lægju í auknum tengslum skólanna en að jafnframt væru ákveðnar hindranir sem horfa þyrfti til og leysa þannig að hugsanleg sameining yrði farsæl fyrir þá starfsemi sem er á vegum beggja skóla í dag.

Í gær undirrituðu Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, viljayfirlýsingu um að hefja formlegar viðræður um aukið samstarf og hugsanlega sameiningu Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. Viðræðurnar munu felast í fýsileikagreiningu á því hvaða tengslaform myndi henta best til að tryggja áframhaldandi starfsemi beggja háskólanna með aukin gæði háskóla að markmiði. Jafnframt verður hluti af vinnunni greining á húsnæðismálum Háskólans á Hólum í Skagafirði, m.a. til að bæta aðstöðu til náms í lagareldi. Háskólinn á Hólum er með kjarnasvið sem byggja undir mikilvægar atvinnugreinar í íslensku samfélagi. Þessi kjarnasvið eru ekki í boði í öðrum háskólum á Íslandi. Bæði HVIN ráðuneytið sem og Háskóli Íslands sjá mikil tækifæri í áframhaldandi starfsemi Háskólans á Hólum í Skagafirði.

Aukið samstarf skili m.a. fjölbreyttara námsframboði

Ýmsar leiðir eru færar til að auka verulega samstarf og tengsl skólanna með árangursríkum hætti. Báðir rektorarnir leggja bæði áherslu á að aukið samstarf skili fjölbreyttara námsframboði, öflugri rannsóknum og auknum tengslum við atvinnulíf og samfélag. Hér má nýta reynslu erlendis frá, t.d. af háskólakerfum þar sem háskólar starfa sem ein skipulagsheild en eru um leið sjálfstæðar starfseiningar á sínu háskólasvæði.

Háskólarnir hafa tilnefnt hvor um sig þrjá fulltrúa til viðræðna um áframhaldandi greiningu. Ásamt Hólmfríði eru Anna Guðrún Edvardsdóttir, rannsóknastjóri og Skúli Skúlason, prófessor, fulltrúar Háskólans á Hólum í viðræðunum.

Áhersla á áframhaldandi háskólastarfsemi í Skagafirði

Bæði Háskóli Íslands og Háskólinn á Hólum leggja áherslu á áframhaldandi háskólastarfsemi í Skagafirði. Á sama tíma er Háskólinn á Hólum í miklum umbreytingum hvað varðar húsnæði og hafa því báðir rektorar lagt áherslu á að leyst verði úr því. Háskólinn á Hólum hefur nú þegar flutt úr húsnæði FISK Seafood á Sauðárkróki þar sem starfsemi fiskeldis- og fiskalíffræðideildar hefur verið í meira en 20 ár. Á sama tíma hefur hluta af skólabyggingunni á Hólum verið lokað vegna myglu og talið er að þörf verði á að fara í mygluframkvæmdir einnig í öðrum hlutum skólabyggingarinnar.

Skólabyggingin er eins og flestir vita, bæði sögufræg og friðuð bygging sem er yfir 100 ára gömul. Á þessum 100 árum hafa bæði skólahald og kennsluaðferðir breyst heilmikið. Sem dæmi má nefna að efsta hæð skólans er byggð sem heimavist, en í dag búa staðnemar í íbúðum á Nemdendagörðum. Að auki stundar meirihluti nema sitt nám við skólann gegnum fjarnám og staðlotur. Nútíma kennsluaðferðir, fjarnám og fjarvinna starfsmanna hafa einnig breytt þeim kröfum sem gerðar eru til húsnæðis fyrir háskóla. Vegna þessa hefur Háskólinn á Hólum lagt til að skólinn fái nýtt húsnæði sem hentar betur fyrir nútíma starfsemi skólans. Háskólinn á Hólum leggur einnig mikla áherslu á varðveitingu bygginga á sögum, sem og sögu staðarins.

Vegna þessa undirritaði einnig ráðherra Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, undir viljayfirlýsinguna, þar sem ráðuneytið mun vinna af krafti við að leysa húsnæðismál skólans samhliða viðræðunum á milli Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. Þar mun ráðuneytið styðja við áform og tillögugerð Háskólans á Hólum um uppbyggingu á aðstöðu Háskólans á Hólum, bæði á Hólum í Hjaltadal og á Sauðárkróki. Þetta mál var svo lagt fram á ríkisstjórnarfundi í dag og fékk góðar undirtektir.

Mikil tækifæri í að tengjast Háskóla Íslands

„Ég sé mikil tækifæri í því fyrir Háskólann á Hólum og landsbyggðina almennt, að tengjast Háskóla Íslands með formlegum hætti og stórbæta húsnæðisaðstöðu skólans í Skagafirði. Háskólinn á Hólum á sér langa sögu og byggir undir mikilvægar atvinnugreinar í íslensku samfélagi, sem allar eru í miklum vexti. Allar þessar atvinnugreinar eru einmitt stundaðar í miklum mæli á landsbyggðinni. Slíkt samstarf mun bæði efla byggðir landsins og bæta tengingu höfuðborgarsvæðisins við landsbyggðina“, segir Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum.

„Ég tel að þetta samstarf muni efla aðgengi að námi á landsbyggðinni, tryggja áframhaldandi háskólastarfsemi í Skagafirði og vonandi eflingu hennar. Því er ánægjulegt að sjá að það er tekið vel í að byggja nýja aðstöðu fyrir skólann, svo skólinn geti vaxið í takt við þarfir samfélagsins. Sveitarfélagið hefur átt gott samtal við stjórnendur skólans og ráðuneytið varðandi þessi málefni og mun halda áfram að taka virkan þátt í samtalinu til að styðja við skólann og varðveitingu Hólastaðar“, segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir