Leikur í kvöld og Drungilas með

Drungilas og Kristófer Acox munu væntanlega stíga vangadansinn í kvöld en þeir ættu báðir að vera klárir í slaginn – enda hraustir menn sem kalla ekki allt ömmu sína. MYND: DAVÍÐ MÁR
Drungilas og Kristófer Acox munu væntanlega stíga vangadansinn í kvöld en þeir ættu báðir að vera klárir í slaginn – enda hraustir menn sem kalla ekki allt ömmu sína. MYND: DAVÍÐ MÁR

Ótrúlegasta fólk í Skagafirði dregur andann nú varlega vegna spennu yfir úrslitaeinvígi Tindastóls og Vals í Subway-deildinni í körfuknattleik. Annar leikur liðanna er í Síkinu í kvöld og verður vafalítið mikið um dýrðir; partýtjaldið opnað klukkan fjögur og þangað mæta megastjörnur á borð við Helga Sæmund, Audda Blö og Steinda Jr. Ef einhver hefur pláss fyrir hammara og lindarvatn þá er hægt að redda því því grillið verður sjóðandi heitt löngu fyrir leik sem hefst kl. 19:15.

Að sögn Dags formanns er fyrir löngu uppselt á leikinn og það stefnir því í stemningu og hasar. Valsmenn þurfa nú að vinna leik í Síkinu til að eiga séns á að halda í meistarabikarinn en Stólarnir verða nú varla í stuði fyrir þvílíkt og annað eins.

Aganefnd vísaði máli Drungilas frá

Til þess að kynda bálið milli klúbbanna enn frekar skellti dómaranefnd KKÍ í eina risabombu í gær og „...vísaði meintu agabroti Adomas Drungilas í fyrsta leik Vals og Tindastóls í úrslitum Subwaydeildar karla til aga- og úrskurðarnefndar, þar sem honum er gefið að sök að hafa slegið Kristófer Acox í höfuðið,“ eins og segir í frétt á Karfan.is. Dómaranefndin hafði að sjálfsögðu rétt á því að gera þetta en ákvörðunin kom mörgum spánskt fyrir sjónir þar sem dómarar leiksins sáu atvikið og skoðuðu í skjá áður en þeir komust að þeirri réttlátu niðurstöðu að um óíþróttamannslegt brot hefði verið að ræða. Niðurstaða aganefndar varð sú, samkvæmt  upplýsingum Feykis, að vísa málinu frá og því ekkert því til fyrirstöðu að Drungilas hefji teygjuæfingar nú þegar – hann verður ekki í banni í kvöld. Hér má lesa niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar KKÍ >

Nú er bara að stuðningsmenn liðanna muni að skemmta sér fallega og haldi þrýstingnum innan hæfilegra marka. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir