KS bauð starfsfólki á skyndihjálparnámskeið :: Nóg að gera í kennslu í skyndihjálp og björgun

Fyrir skömmu fór fram skyndihjálparnámskeið á pólsku fyrir erlent starfsfólk Kaupfélag Skagfirðinga sem þótti takast vel. Á myndinni eru þátttakendur ásamt Karli Lúðvíkssyni, lengst til vinstri, og Önnu Szafraniec túlk og Helgu Jónínu Guðmundsdóttur, deildarstjóra í starfsmannahaldi KS lengst til hægri. Mynd: PF. Aðrar myndir tók Helga Jónína.
Fyrir skömmu fór fram skyndihjálparnámskeið á pólsku fyrir erlent starfsfólk Kaupfélag Skagfirðinga sem þótti takast vel. Á myndinni eru þátttakendur ásamt Karli Lúðvíkssyni, lengst til vinstri, og Önnu Szafraniec túlk og Helgu Jónínu Guðmundsdóttur, deildarstjóra í starfsmannahaldi KS lengst til hægri. Mynd: PF. Aðrar myndir tók Helga Jónína.

Kaupfélag Skagfirðinga ákvað í upphafi árs að bjóða starfsfólki sínu upp á fjögurra stunda upprifjunarnámskeið í skyndihjálp og endurlífgun. Í maí höfðu alls 130 starfsmenn fyrirtækisins sótt námskeiðin, níu þeirra voru haldin á íslensku og eitt á pólsku. Að sögn Helgu Jónínu Guðmundsdóttur, deildarstjóra í starfsmannahaldi, er fyrirhugað að halda annað námskeið á pólsku í september.

Helga Jónína segir námskeiðin hafa gengið ljómandi vel og Karl Lúðvíksson, leiðbeinandi í skyndihjálp og endurlífgun og skyndihjálp og björgun, hafi séð um þau öll, Anna Szafraniec aðstoðaði hann með því að vera túlkur á námskeiðinu sem fram fór á pólsku. Starfsfólk sýndi þakklæti og ánægju með að fá upprifjun á þessu mikilvæga málefni.

Á  hjartaheill.is kemur fram að heilbrigðisyfirvöld í heiminum mæli eindregið með fjölgun sjálfvirkra hjartarafstuðtækja sem einu leiðina til að auka lifun þeirra sem fá hjartastopp en skyndilegt hjartastopp er oftast af völdum takttruflana í hjartanu. Algengasta orsökin er sleglaflökt en þá dælir hjartað engu blóði og er rafstuð eina þekkta meðferðin við sleglaflökti. Helga Jónína segir KS hafa átt fimm hjartastuðtæki og bíður nú eftir afgreiðslu á þremur tækjum til viðbótar en töluverðar tafir hafa verið á innflutningi slíkra tækja það sem af er ári. „Þegar nýju tækin berast verðum við komin með hjartastuðtæki í allar starfsstöðvar KS. Öll tæki KS eru skráð á Cisali sem er hvoru tveggja vefsíða og app sem veitir upplýsingar um skráð hjartastuðtæki í Evrópu.

Mér þykir mikilvægt að koma á framfæri því góða starfi sem Rauði krossinn í Skagafirði, með Karl Lúðvíksson í forsvari, stendur fyrir. Fyrir okkar góða samfélag er framlag og fræðsla þeirra mikils virði. Það er til mikillar fyrirmyndar hvernig hefur verið staðið að þessum málum hjá þeim og hvernig þau dreifa hjartastuðtækjum um fjörðinn. Innflutningsaðili tækjanna, Ólafur hjá Donna ehf., sagði mér að Kalli hugaði einstaklega vel að þessum málum og það væri sérstaklega vel að þessu staðið hér í Skagafirði – Við getum því öll verið stolt af því,“ segir Helga Jónína.

Karl er sammála Helgu Jónínu um að námskeiðin hafi tekist vel og ekki síst með erlenda starfsfólkinu enda með góðan túlk sér til aðstoðar og segir hann annað eins námskeið vera fyrirhugað í haust.

Nóg er að gera hjá Karli sem nýlokið hefur kennslu á námskeiði í skyndihjálp og björgun við sundlaugina á Skagaströnd og nú, þegar Feykir kemur út, við Jarðböðin við Mývatn. Síðan verður hann með námskeið í skyndihjálp og endurlífgun í Kröflustöð 8. júní og í Blöndustöð dagana 12., 13. og 14. júní.

Alltaf hringt í 112

„Mér finnst að fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök hér í Skagafirði séu mjög vel meðvituð um mikilvægi kunnáttu í skyndihjálp og endurlífgun. Ég má líka til með að nefna það að Rauði krossinn í Skagafirði hefur til margra ára gefið tólf tíma námskeið í skyndihjálp og endurlífgun, (nemendum 10. bekkjar) í grunnskólana á svæðinu. Þetta hafa Varmahlíðarskóli og Grunnskólinn austan Vatna alltaf þegið en því miður er langt síðan að Árskóli á Sauðárkróki þáði þetta góða boð.

Rauði krossinn í Skagafirði hefur, auk mín, á að skipa þremur leiðbeinendum í skyndihjálp og endurlífgun og skyndihjálp og björgun og það eru þau Ingvar Magnússon, Baldur Ingi Baldursson og Sigurlína Hrönn Einarsdóttir.

Rauði krossinn í Skagafirði á líka fimm hjartastuðtæki sem eru staðsett vítt og breitt um Fjörðinn. Eitt er á Hrauni á Skaga, eitt á Brúnastöðum í Fljótum, eitt á Silfrastöðum, eitt á Lýtingsstöðum og eitt í Furulundi 10. í Varmahlíð. Auk þess eru þrjú önnur tæki sem Rauði krossinn á ekki en hefur á að skipa sjálfboðaliðum á hverjum stað til að nota þau ef þarf. Þessir staðir eru Hofsós, Hólaskóli og Deplar í Fljótum. Á hinum stöðunum eru tækin líka í umsjá okkar sjálfboðaliða.“

Karl segir að hugsunin með þessari stuðtækjaeign og dreifingu þeirra sé sú að mögulega líður styttri tími þar til stuðtæki er tiltækt en með sjúkraflutningabíl frá Sauðárkróki.

„Það skal samt tekið fram að sjálfboðaliðar okkar eru ekki á öruggum vöktum heldur eru þeir til taks að því gefnu að þeir séu heima við. Fyrirkomulagið er þannig að alltaf er hringt í neyðarlínuna 112, neyðarlínan hefur samband við sjúkraflutningamenn á Sauðárkróki og í sumum tilvikum á Siglufirði vegna óhappa í Fljótum og þeir meta hvort um tímasparnað er að ræða og hringja þá í viðkomandi sjálfboðaliða. Öll þessi stuðtæki, staðsetningu og símanúmer, má líka finna í appinu Cisali sem er ókeypis og allflestir geta hlaðið niður í símann sinn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir