Króksmótið nálgast - „Fótboltamót snúast um að skapa góðar minningar og fá tækifæri til að þroskast og læra“

Frá Króksmótinu í fyrra. Mynd: ÓAB
Frá Króksmótinu í fyrra. Mynd: ÓAB

Það er skammt milli stórra högga í viðburðarhaldi á Sauðárkróki þessa dagana því að nú örfáum dögum eftir að Unglingalandsmóti UMFÍ lauk, hefst Króksmót. Mótið fer fram dagana 12. til 13. ágúst á íþróttasvæðinu á Króknum og er fyrir 6. og 7. flokk drengja. 

Um 600 keppendur eru skráðir á mótið í ár sem er aukning frá því í fyrra.

Feykir hafði samband við þær Guðbjörgu Óskarsdóttur og Lee Ann Maginnis sem koma báðar að skipulagningu mótsins.

Hvernig hefur undirbúningurinn gengið?
Undirbúningurinn hefur gengið vel og núna síðustu daganna fyrir mót er verið að ganga frá loka verkefnunum áður en mótsgestir mæta á svæðið á föstudaginn. Það er auðvitað búið að vera mikið að gera hjá mótsstjórninni í sumar þar sem ÓB-mót stúlkna og Unglingalandsmót UMFÍ hafa nú þegar verið haldin á svæðinu með fjölmörgum gestum og frábæru veðri.

Við sjáum að það er mætt tívolí í bæinn, okkur að óvörum. Það er auðvitað bara frábær viðbót við mannlífið í bænum þó svo að það sé ekki á okkar vegum.

Í knattspyrnudeildinni má finna fólk með mikla reynslu í bland við fólk sem hefur mikinn áhuga á því að styðja vel við deildina og er til í að hoppa inn í þau fjölmörgu verkefni sem koma upp hverju sinni.

Mótahald er ein stærsta fjáröflun knattspyrnudeildarinnar sem gerir það að verkum að hægt er að halda úti öflugu starfi allt árið um kring og halda æfingagjöldunum í lægri kantinum. Svo má ekki gleyma því hvað það er frábært fyrir ekki stærra félag en okkar að halda úti tveimur stórum mótum á sumri og fá alla þetta gesti úr öðrum félögum til okkar.

Hvað eru margir keppendur skráðir?
Í ár erum við með um 600 keppendur í 102 liðum sem er aukning frá því í fyrra um 10 lið. Það er fullkomin stærð fyrir mót sem þetta og vonumst við til að geta skilað af okkur góðu móti.

Er erfiðara að fá sjálfboðaliða á mótið vegna þess að það er helgina á eftir unglingalandsmóti eða er það ekkert mál?
Við erum alveg rosalega heppin með samtakamátt samfélagsins okkar í Skagafirði. Eins og sást um helgina á Unglingalandsmóti UMFÍ þá eru sjálfboðaliðar lykilatriði í að mót sem þessi geti orðið að veruleika.

Við eigum enn eftir að manna nokkrar vaktir fyrir Króksmótið en ég veit ekki hvort að Unglingalandsmótið eða Fiskidagurinn mikli spili þar stærra hlutverk. Það er mikið búið að mæða á sjálfboðaliðum Skagafjarðar undanfarna mánuði og maður skilur að sumir séu orðnir þreyttir.

Það er hins vegar bara svo rosalega gaman að taka þátt í svona verkefnum og launin sem maður fær í formi þakklætis og ánægðra keppenda eru alveg vel þess virði.

Eitthvað sem mótsstjórn vill koma á framfæri?
Helsta markmið með íþróttaiðkun barna snýst ekki um að vinna sem flesta leiki þó það sé að sjálfsögðu alltaf gaman. Fótboltamót snúast um að skapa góðar minningar og fá tækifæri til að þroskast og læra. Það er mikilvægt að við fullorðna fólkið séum góðar fyrirmyndir. Að við hvetjum börnin áfram, hrósum þeim fyrir það sem er vel gert og hjálpum þeim að takast á við allar þær tilfinningar sem upp geta komið á svona mótum.

Það er okkar hlutverk að öll börn fari heim með bros á vör og gleði í hjarta.

Svo viljum við þakka öllum þeim sem hjálpa okkur að gera mótin okkar að veruleika, án þeirra þá væri þetta ekki hægt.

 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir