Kristinn Gísli poppar upp með PopUp á Sauðá
Feykir sagði frá eigendaskiptum á veitingastaðnum Sauðá á Sauðárkróki í sumarbyrjun og þar kom fram í samtali við tvo af eigendum staðarins, feðginin Jón Daníel Jónsson og Söndru Björk Jónsdótur, að reikna mætti með PopUp heimsóknum á Sauðá í sumar. Senn kemur fyrsti gestakokkurinn í heimsókn og reyndar þurfti ekki að leita langt yfir skammt því það er landsliðskokkurinn sjálfur, Kristinn Gísli Jónsson, sonur Jóns og bróðir Söndru, sem mætir til leiks frá Noregi. Þar hefur hann upp á síðkastið starfað á Michelin veitingastaðnum Speilsalen í Þrándheimi.
Kristinn Gísli verður með PopUp-ið á Sauðá dagana 14.-15. júlí og mun, samkvæmt frétt á netsíðunni Veitingageirinn, bjóða upp á glæsilegan sex rétta matseðil þar sem skagfirskt hráefni verður í hávegum haft.
Fram kemur í fréttinni að Kristinn hefur náð langt í hinum ýmsu matreiðslukeppnum í gegnum tíðina. Hann hreppti silfur í Norrænu nemakeppninni árið 2017 sem haldin var í Helsinki í Finnlandi í Hótel og matvælaskólanum þar í landi. Þá lenti hann í 10. sæti af 23 keppendum í EuroSkills – Evrópukeppni iðn- og verkgreina í Búdapest í Ungverjalandi árið 2018. Hinrik Lárusson og Kristinn Gísli sigruðu í alþjóðlegri matreiðslukeppni í Grikklandi árið 2019 og Kristinn var meðlimur íslenska Kokkalandsliðsins þegar liðið hreppti 3. sæti á Ólympíuleikunum landsliða í matreiðslu sem haldið var í Stuttgart í Þýskalandi árið 2020.
Kristinn náði 2. sætið í Kokkur ársins nú í ár.
Króksarar og nærsveitungar ættu að kannast við matseld Kristins Gísla en hann var til dæmis að kokka í Gránu Bistro á Sauðárkróki í Covid-faraldrinum.
Matseðillinn sem Kristinn býður upp á veitingastaðnum Sauðá dagana 14.-15. júlí er eftirfarandi:
- Skagfirskar rækjur, rabbabari og rós
- Reyktur silungur, soðbrauð, piparrót og sítróna
- Tómatar frá Laugarmýri, Feykir, graslaukur og pipar
- Þorskur, hvítvín, gúrka og dill
- Lamba hryggvöðvi, kartöflur, bláber og smjör
- Þeyttur rjómi, mysa, marengs og ber
Hægt er að panta borð í síma 833-7447.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.