Hvítur himbrimi í höfninni á Króknum

Hvíti himbriminn að svamli fyrr í sumar í miðjum Skagafirði. Mynd: Elvar Már Jóhannsson.
Hvíti himbriminn að svamli fyrr í sumar í miðjum Skagafirði. Mynd: Elvar Már Jóhannsson.

Fyrr í dag birti Viggó Jónsson myndir af sérkennilegum fugli á sundi í smábátahöfninni á Sauðárkróki.

Birti hann myndirnar á Facebook og eru menn sammála um að þarna sé hvítur himbrimi og hefur fuglinn víst sést áður og annarsstaðar í Skagafirði.

„Ég sá hann bara í höfninni á Króknum. Hann kafaði hérna við bátinn hjá okkur, ég var að sýna ferðafólkinu hann í morgun áður en ég lagði af stað í Drangey,“ segir Viggó í samtali við Feyki en hann rekur ferðaþjónustufyrirtækið Drangeyjarferðir.

„Ég sá hann fyrir nokkrum dögum en náði ekki mynd af honum, ég var svo núna búinn að vera á verði, vera var um mig, klár með myndavélina.“

Viggó er ekki sá eini sem hefur séð hvíta himbrimann, Elvar Már Jónsson hefur einnig séð hann annars staðar í Skagafirði, bæði í ár og í fyrra.

„Ég sá hann einu sinni í fyrrasumar. Þá var hann í Hofsóshöfn. Sá hann svo aftur út á miðjum firðinum fyrir nokkrum vikum," segir Elvar við Feyki.

Ekki virðist hinn hvíti himbrimi vera vinsæll hjá öðrum himbrimum því hvorki Viggó né Elvar kannast við að hafa séð hann með öðrum fuglum. 

Þetta er ekki fyrsta hvíta afbrigðið af fuglategund sem sést í Skagafirði á undanförnum árum því hvítur hrossagaukur hefur spókað sig um í firðinum  um nokkurt skeið.

Ástæðan fyrir því að fuglar sem ekki eiga að vera hvítir, verða hvítir, er sú að erfðafræðileg stökkbreyting veldur því að skortur er á melanín, litarefni húðar og hárs (fjaðra í tilfelli fugla), sem veldur því að fuglar verða hvítir eða dofnir á litinn, annað hvort að fullu eða í blettum.

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir