Hugvekja í Sauðárkrókskirkju 29. apríl 2024 | Óli Björn Kárason skrifar

Óli Björn Kárason, ræðumaður Kirkjukvölds í Sæluviku 2024. MYND: VALGEIR KÁRA
Óli Björn Kárason, ræðumaður Kirkjukvölds í Sæluviku 2024. MYND: VALGEIR KÁRA

Kirkjukvöld Kirkjukórs Sauðárkróks er fastur liður í Sæluviku. Þar er eðlilega mikið sungið og vel vandað til. Þá er jafnan fenginn ræðumaður til að brjóta upp söngskemmtunina og oftar en ekki eru sóttir til verksins brottfluttir Skagfirðingar. Og þá er ekki ólíklegt að rifjaðir séu upp sögur frá eldri tímum. Að þessu sinni var það Óli Björn Kárason, þingmaður og blaðamaður, sem kveikt upp minningabál meðal kirkjugesta.

Feykir falaðist eftir erindinu til birtingar sem reyndist auðfengið og það má lesa hér að neðan.

- - - - -

Mér þótti vænt um þegar Jóhanna frænka hringdi í mig og bað mig um að vera með ykkur hér í kvöld. Það er ljúf skylda og takk fyrir að bjóða mér. Ég vona að þið eigið eftir að njóta Sæluvikunnar eða Sýslufundarvikunnar eins og hún var oft kölluð í upphafi.

   Sælu-vika! Viðrar nú blessuð sveitin
   í vetrarlokin fram úr hverjum dal
   þyrpingar fólks sem flykkist í kaupstaðinn, syngur
   faðmast og syngur, leiftrandi glösum klingir.
   Þagnar um stund við þriðja hanagal.

Það er útilokað fyrir mig að standa hér í þessari fallegu kirkju æsku minnar án þess að vitna í ljóðlínur Hannesar Péturssonar náins vinar föður míns Kára Jónssonar. Þeir brölluðu ýmislegt saman sem verður aldrei sagt frá en einu sinni – stuttu eftir að ég fékk bílpróf – fékk ég það verkefni að keyra þeim um sveitir Skagafjarðar þegar þeir heimsóttu marga góðbændur, sem allir tóku vel á móti félögunum. Dregnar voru fram góðar veigar og veitt vel. Við komum ekki aftur heim fyrr en klukkan var að verða sjö að morgni. Þeir báðir hrjótandi í bílnum. Ekki er ég viss um að þeir hafi munað allt úr ferðinni en ég kynntist betur bændum, sem áður voru mér rétt málkunnugir en urðu sumir góðir vinir mínir.

Greinarhöfundur sem kallar sig því furðulega nafni Fjarstaddur, skrifar um Sæluvikuna í Íslending 1952 – átta árum áður en ég fæddist. Hann segir að við Skagfirðingar eigum þakkir skildar fyrir að hafa, „einir úr héruðum landsins, fundið upp sína sæluviku“. Orðrétt skrifar Fjarstaddur:

„Og þó að stundum sé á orði haft, að þar leiki um varir göróttar veigar, má vel muna það, að margir Skagfirðingar, er sækja sæluvikuna sína, bregða sér á leik aðeins í þetta eina skipti á ári hverju, og mættu aðrir landsmenn taka það til fyrirmyndar, því að margt mundi betur fara í þjóðlífi voru, ef sá siður væri á hafður, að sleppa gleði sinni lausri aðeins einu sinni á ári, en hafa gott vald á taumum þar á milli.“

Jóhanna frænka sagði að ég ætti að rifja upp liðna tíma, segja frá skemmtilegum æskuminningum, og ævintýrum.

Í yfir 60 ár hefur Jóhanna staðið í þeirri trú, - líkt og systir hennar og mín besta stóra-systir Guðný, að ég hefði sömu hæfileika og pabbi. Hefði erft frásagnargáfuna og húmorinn. Væri meistari eftirhermunnar og leiklistarinnar. Ég held að ég hafi fengið annað í arf frá pabba. Alveg með sama hætti og allir gengu út frá því að ég hefði sömu hæfileika og mamma – Eva Mjallhvít – í tónlist. Liðlega 12 ára tónlistarnám – á píanó og þverflautu – rennir stoðum undir að hæfileikar ganga ekki alltaf í erfðir. En ég elska tónlist og er ástfanginn af leikhúsinu. Hvernig er annað hægt.

Pabbi kenndi mér að flytja ljóð – ekki lesa þau. Hann lét mig standa á stofugólfinu heima á Smáragrund og flytja ljóðin sem ég átti að læra – ljóð úr bláu bókinni – Skólaljóðin. Hann hafði engan áhuga á því að ég kæmi heim með vottorð um að ég hefði náð 200 atkvæðum í kapplestri til að sanna að ég væri læs. Hann vildi að ég læsi textann skýrt – stoppaði við kommur og punkta – og það sem mestu skipti; að öllum væri ljóst að ég skildi textann – hefði tilfinningu fyrir því hvað hann þýddi. Að lesa og skilja. Lestur án skilnings er lítils virði sagði pabbi. Ljóð án tilfinningar er lítið annað en samansafn orða. Þess vegna á að flytja ljóð en ekki lesa. Ég hef því alltaf talað hægt og raunar svo mjög að samkvæmt mælingum Pírata mun ég vera þriðji hægmæltasti maðurinn á þingi. Píratar eru með aðalatriðin á hreinu.

Mamma reyndi að kenna mér að spila á píanóið með tilfinningu – túlka tónlistina. Vélrænir tónlistarmenn voru henni ekki að skapi – en þrátt fyrir takmarkaða hæfileika naut hún þess að hlusta á mig reyna við Chopin og jafnvel Bítlana á píanóið eða Jón Nordal á þverflautuna, heima á Smáragrundinni. Hún hafði þolinmæðina og aldrei komst ég undan því að koma fram á tónleikum Tónlistarskólans. Uppbygging skólans var lífsköllun mömmu og þar naut hún traustra bakhjarla – ekki síst heiðursmannanna Marteins Friðrikssonar og Þorbjörns Árnasonar.

Margt í æsku minni snerist um Bakaríið. Þangað kom ég gjarnan eldsnemma á morgnana til að fá nýbakað brauð sem ég át innan úr. Fátt er betra en heitt nýbakað fransbrauð með kaldri mjólk. Í Bakaríinu var alltaf líf og fjör, ekki síst þegar allar systurnar voru á staðnum. Snæja og Gígja inni í stofu að syngja aríur eða íslensk sönglög og mamma að spila undir. Bidda og Elma þögðu ekki og á stundum dró Elma fram gítarinn.

Og svo voru 5, 10 jafnvel 15 börn, á öllum aldri, hlæjandi, öskrandi og hlaupandi út um allt – upp á háaloft, niður í bakarí og upp í íbúð. Þetta var ekkert venjulegt heimili. Ömmu Ólínu leið aldrei betur en þegar allt var á útopnu og flest af hennar fólki nálægt.

Milli ömmu og afa Guðjóns – Guðjóns Sigurðssonar bakarameistara – var einstakt samband. Guðjón hafði sem ungur maður látið sig dreyma um að hefja nám í læknisfræði, en veikindi og fátækt komu í veg fyrir það. Því sneri hann sér 19 ára gamall að því læra bakaraiðn á Sauðárkróki hjá Snæbirni Sigurgeirssyni, móðurafa mínum. Að áeggjan meistara síns hélt hann þremur árum síðar, árið 1930, til Kaupmannahafnar til frekara náms – þá 22 ára.

Þegar Snæbjörn kenndi sér lasleika í ársbyrjun 1932 og gerði sér grein fyrir að hverju stefndi, skrifaði hann sínum gamla lærisveini og bað hann að koma heim. Þá var fjárhagur bakarísfjölskyldunnar erfiður líkt og flestra á Íslandi. Amma Ólína var rétt þrítug með fjögur ung börn, það elsta átta ára og það yngsta tveggja, en fimmta barnið var undir belti.

Ungi maðurinn hugsaði sig aldrei um, heldur sneri þegar heim – þá 24 ára gamall. Hann leit á það sem skyldu sína gagnvart meistaranum, ungri eiginkonu hans og ungum börnum, að veita aðstoð. Nokkrum vikum síðar andaðist Snæbjörn. Í þá daga hefði lítið annað beðið fjölskyldunnar en að fara á sveitina og sundrast með fráfalli fyrirvinnunnar.

Ungi maðurinn – ekki hálfþrítugur – axlaði ábyrgð á ekkju og fimm börnum, sem hann gekk í föðurstað. Þá var móðir mín tveggja ára. Síðar rugluðu afi og amma saman reitum og varð þeim þriggja barna auðið.

Í verki sýndi afi Guðjón úr hverju hann var gerður og hvaða lífsgildi skiptu hann mestu, í leik og starfi en ekki síður í pólitík.

Amma réði ríkjum í Bifröst þegar glæsilegar matarveislur voru haldnar. Þá var Bifröst líkt og leikvöllur fyrir lítinn pottorm. Kaj Jörgensen kom að sunnan, enda snilldar matreiðslumaður, og lagði tengdamömmu sinni lið. Snæja frænka, eiginkona Kaj, mætti og mamma Eva, Bidda frænka og Björn og auðvitað Gunni frændi, Gunnar Þór Guðjónsson bakarameistari. Gunni og Björn höfðu einstaklega gaman af því að gefa mömmu og Snæju sherrý í flöskutappa. Þær þurftu ekki meira til að byrja að hlæja og skríkja líkt og þær væru orðnar unglingar á ný.

Svo var Bifröst leikhús – oft undir stjórn pabba. Ég átti í stuttu ástarsambandi við leiklistargyðjuna. Þar steig ég mín fyrstu skref á sviði ásamt Sveini Ólafssyni, æskuvini mínum. Eftir frumsýningu var samkvæmt venju boðið upp á veitingar niðri í búningsherbergi . Íslenskt brennivín blandað í kók í litlum flöskum voru á borðum og undir borði voru kókflöskur án áfengis. Þetta vissi ég en gleymdi að segja Sveini. Hann réðst strax til atlögðu við það sem var á borðum og var kominn í einum sopa niður í hálfa flösku áður en hann áttaði sig á að ekki væri allt með felldu. Hann varð náhvítur og hljóp út til að kasta upp.

Það var inn í þessa fjölskyldu sem ég kynnti verðandi eiginkonu mína, Margréti Sveinsdóttur frá Kálfsskinni, eða Grétu, fyrir um 43 árum. Hún hafði komið á puttanum frá Eyjafirði. Mamma fékk áfall þegar hún áttaði sig á því að ung kona hefði ferðast með þeim hætti. Þegar við komum inn í anddyrið í Bakaríinu gengum við beint í fangið á Birni Björnssyni, sem er fæddur Eyfirðingur en orðinn meiri Skagfirðingur en flestir sem ég þekki. Eftir að ég hafði kynnt Grétu, tók Björn hlýlega um axlir hennar og sagði: „Veistu, ég verð að segja það því enginn varaði mig við þegar ég var vígður inn í þessa fjölskyldu. En guð minn góður, forðaðu þér, áður en það er of seint. Þetta lið er allt saman kolruglað.“ Svipurinn á Grétu var blanda af undrun og ótta. En svo hló Björn og bætti við: „En ég er á lífi og nýt hverrar mínútu“. Gréta flúði ekki og hún og Björn eru sérstakir bandamenn í Bakarís-fjölskyldunni.

Bakarís-fjölskyldan eða bakarís-íhaldið. Pólitík var óaðskiljanlegur hluti af æsku minni. Bakaríið var á stundum eins og brautarstöð – miðstöð baráttu Sjálfstæðisflokksins. Beint á móti var Sæborg, félagsheimili Sjálfstæðismanna – á annarri hæð fyrir ofan Matvörubúðina, þar sem Kristján Skarphéðinsson réði ríkjum. Hann hafði sem ungur maður komið að máli við ömmu og leitast eftir því að fá inni hjá henni tímabundið. Ég held að hann hafi verið í nær 17 ár með herbergi og mat – hann varð einn af fjölskyldunni.

Í aðdraganda kosninga var líf og fjör í Sæborg og á kjördegi var þar veisla. Virðulegur borgari hér í bænum var vanur að hringja í kosningaskrifstofu Alþýðubandalagsins og óska eftir keyrslu til og frá kjörstað. Í þá daga áttu allaballar flottustu bílana – oftar en ekki ameríska kagga, sem mér þótti alltaf dálítið skondið. Eftir að hafa greitt atkvæði lét þessi góði maður skutla sér til íhaldsins í Sæborg, enda voru þar alltaf flottustu veitingarnar – borðin svignuðu af veisluföngum. En sá gamli kaus alltaf kratana.

Þetta vissu allir en hann fékk alltaf sömu góðu þjónustuna hjá kommunum og naut sérstakrar gestrisni íhaldsins. Þannig var pólitíkin hér á Króknum þótt hún gæti einnig orðið harkaleg, ekki síst innan flokka þar sem æsku- og vinabönd voru slitin – sár rist sem greru seint og illa, en greru þó. Því fékk ég að kynnast á unglingsárunum.

Bakaríið var táknmynd sjálfstæðisbaráttunnar gagnvart veldi kaupfélagsins alveg með sama hætti og Slátursamlag Skagfirðinga, sem pabbi sagði alltaf að væri í eigu frjálsra bænda. Ég var 16 ára þegar Eykon, Eyjólfur Konráð Jónsson sem mér fannst stundum að væri sérstakur þingmaður bakarísíhaldsins, hótaði að skjóta hrútinn eigin hendi og hefja slátrun þegar kerfið ætlaði að loka sláturhúsinu. Okkur grunaði alltaf að þar að baki væri Kaupfélagið. Kerfið lét undan og frjálsir bændur fengu að reka sitt eigið sláturhús í yfir 20 ár eftir þetta. Tortryggni í garð kaupfélagsins var mér í blóð borin og í Bakaríinu var lítill ef nokkur greinarmunur gerður á Framsóknarflokknum, Sambandinu og Kaupfélaginu. Þetta var á þeim tímum þegar Sjálfstæðismenn voru tryggðir hjá Sjóvá og Framsóknarmenn hjá Samvinnutryggingum. Íhaldið keypti bensínið hjá Shell en framsóknarmenn eingöngu hjá ESSO. Íhaldsmenn fóru aldrei á ESSO nema að þeir væru bensínlausir. En allir neyddust til að fara í mjólkurbúðina hér á Skagfirðingabraut til að kaupa mjólk, skyr og rjóma. Í þá daga voru mjólkurafurðir aðeins til sölu í sérverslunum en kaupmenn fengu ekki að bjóða viðskiptavinum sínum þessar nauðsynjavörur. Minnir í nokkru á smásölu áfengis.

Í bréfi sem pabbi skrifaði til Haraldar Júlíussonar, kaupmanns í október 1954 frá Kanada, þar sem hann hafði freistað gæfunnar ásamt æskuvini sínum Húgga, Hauki Stefánssyni, segir hann frá vinnu þeirra félaga við að lagfæra járnbrautarteina. Pabbi segir að vinnan sé grábölfuð, erfið og leiðinleg. Sérstaklega hafi verið erfitt um sumarið þegar hitarnir voru mestir. „Það voru ljótu dagarnir, þegar sólin hellti brennheitum geislunum yfir okkar aumingjana,“ skrifar pabbi og bætir við: „Var þá oft af mér dregið og stundum svo að ég gat ekki einu sinni hugsað illt um Framsóknarflokkinn og er þá langt gengið.“

Líklega hefði föðurafa mínum, Jóni Björnssyni – Jóni í Gránu, ekki líkað skrif sonar síns. Og afstaða pabba mildaðist með árunum enda margir góðir æskuvinir hans Framsóknarmenn. Og það varð mikil og góð vinátta milli pabba og tengdaföður míns – framsóknarmannsins, bóndans og byggingaverktakans Sveins Jónssonar í Kálfsskinni. Í yfir 40 ár hef ég reynt að fá hann til liðs við okkur íhaldsmennina en ekkert gengið. Sveinn er liðlega 92 ára þannig að enn er von.

Sem strákpolli var ég vanur að koma á Aðalgötuna til afa Jóns og ömmu Unnar á sunnudögum. Ekki vegna þess að mér væri það skylt heldur vegna þess að fátt fannst mér betra en síróps-kökurnar hennar ömmu með kaldri mjólk. Á eftir sátum við afi löngum stundum og spiluðum kasínu. Heimili þeirra var eins ólíkt heimilishaldinu í bakaríinu og hægt er að hugsa sér. Ró og yfirvegun. Afi leyfði sér aðeins tvennt í lífinu. Hann tuggði píputóbak en aðeins heima eftir vinnu og fékk sér rjóma út í kaffið á sunnudögum. Óhóf og æsingur voru honum framandi. Þannig gekk hann til allra verka, skipulega og án yfirgangs og alltaf beinn í baki. Hann var vanur að banka í mig þegar við gengum saman; réttu úr þér strákur, sagði hann góðlega. Ég var aldrei skammaður á Aðalgötunni. Ríkið hans afa var Grána, verslun kaupfélagsins þar sem allt fékkst.

---

Það er langt síðan ég áttaði mig á því að minnið getur verið svikult. Oft munum við aðeins það sem viljum eða vildum að gerst hefði.

Eitt er víst. Mótunarár mín hér á Króknum voru fremur áhyggjulaus a.m.k. án stóráfalla. Það var helst að við félagarnir hefðum áhyggjur af því að vera ekki komnir á fast upp úr fermingu. Ekkert var talið skýrara merki um þroska en að eiga kærustu, labba með henni um bæinn hönd í hönd. Að hún legði höfuðið á öxlina á manni í bíó hjá Munda Valda Garðars, svo allir máttu sjá, var ómetanlegt. En ekkert jafnaðist á við að geta sagt vinunum frá kossi beint á munninn.

Auðvitað man ég vel eftir lyktinni í litla leikfimisalnum við Barnaskólann þar sem við vorum flest kvöld í körfubolta og ef ekki í körfu þá í badmintoni. Biggi – Birgir Rafnsson – bar höfuð og herðar yfir okkur alla. Engum okkar kom á óvart þegar hann var valinn í unglingalandsliðið í körfu. Enginn var öfundsamur en allir stoltir af því að eiga hann að vin.

Fyrsta útilegan er í fersku minni. Við vorum líklega 12 ára þegar við þrír; Jóhann Helgi Ingólfsson, Jóki á Áka, Sveinn Ólafsson og ég, lögðum af stað á hjólum með bakpoka fullan af mat, fatnaði, tjaldi og prímus. Við hjóluðum yfir í Hegranes – komum okkur fyrir og ætluðum að elda. En enginn okkar hafði haft vit á því að taka með eldspýtur. Ég gleymi því seint þegar mér var í fyrsta og eina skiptið vísað úr skóla, eftir að hafa pissað í sandkassa með bekkjabróður mínum. Okkur fannst það fyndið þangað til Lissý – Lissý Björk Jónsdóttir – tók í taumana og sendi okkur heim.

Minningin um skátana lifir – Gúttó, útilegurnar og skátamótin að ekki sé talað um Lambárbotna sem heiðursmaðurinn Agnar Búi á Heiði lánaði skátafélaginu til allra þeirra nota sem við töldum best. Orusturnar sem við háðum með sverðum og skjöldum í nafni Gunnars á Hliðarenda, Kára og Kolbeins unga eiga sinn stað í minningum æskunnar og svo einstaka grjótkast. Andri bróðir markaði mig fyrir lífstíð þegar hann hæfði mig með ör við vinstri augabrúnina. Og örið á úlnliðnum, eftir að ég braut rúðuna á svalahurðinni á Lindargötu, þar sem við áttum heima, áður við fluttum á Smáragrundina, sést enn. Andri bróðir læsti mig úti og ég taldi mig tilneyddan til að láta hnefann fara í gegnum rúðuna.

Það eru 42 ár síðan ég flutti alfarið héðan af Króknum en hér eru ræturnar. Hér er samfélagið sem mótaði mig. Ég naut þess að tilheyra Bakarís-fjölskyldunni, amma Unnur og afi Jón reyndu að kenna mér nægjusemi og trúrækni – en fyrst og síðast að bera höfuðið hátt án drambsemi. Ég fékk skjól hjá Nonna frænda, Jóni Björnssyni, bróður Jóhönnu og Guðnýjar. Hann gerði öllum eldri strákum á Króknum ljóst að litli frændi skyldi látinn í friði. Hann sagði að sjálfur yrði ég að sjá um jafnaldrana. Guðný frænka var vakandi og sofandi yfir mér eins og stóra systir. Ég sóttist eftir því að vera á Skógargötunni, þar sem Bidda og Björn, bjuggu í nokkur ár. Þar var frelsið og ég vissi að Bidda hafði gengist í einhvers konar ábyrgð á mér áður en ég fæddist. Sú ábyrgð var í gildi á meðan hún lifði.

En það voru ekki aðeins afar, ömmur, frændur, frænkur og æskuvinir sem, hver með sínum hætti, mótuðu mig heldur einnig vandalausir – Guðmundur Sigurðsson öðru fremur. Mundi gamli Gulla og ég vorum vinir. Hann kenndi mér margt þegar ég naut þeirrar gæfu að vinna á Trésmiðjunni Borg í mörg sumur og í skólafríum. Þar voru hagleikssmiðir að störfum, en líklega enginn meiri en Sverrir Björnsson.

Löngu eftir að ég flutti að heiman hitti ég Munda reglulega á bekknum við gamla kaupfélagshúsið, þar sem Sveinn Guðmundsson réði áður ríkjum. Þar ræddum við landsmálin. Mundi var gegnheill krati. Við vorum ekki alltaf sammála en viðhorf okkar til lífsins var hið sama og Mundi hafði meiri áhrif á skoðanir mínar en ég gerði mér þá grein fyrir. Hann var sá fyrsti sem lagði að mér að leggja stjórnmál fyrir mig. Mér þótti það fráleit hugmynd, enda átti blaðamennskan hug minn allan. Mundi hafði aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn en sagðist gera það ef ég færi í framboð. Hann slapp við að leggja íhaldinu lið enda fór ég ekki í framboð fyrr en 15 árum eftir að Mundi féll frá.

Kæru gestir

Ég hef alla tíð verið stoltur af því að kalla mig Króksara og Skagfirðing. Hér hafa orðið stórkostlegar breytingar og í flestu góðar frá því að ég var að alast upp. Tækifærin eru margfalt fleiri fyrir ungt fólk. Samfélagið undir Nöfunum er lifandi og öflugt. Hér niðri í bæ þekki ég ekki alla líkt og áður og þegar ég hitti ungt fólk spyr ég ekki lengur að því hverjir foreldrarnir séu en forvitnast um afa og ömmur. Það er gangur lífsins og fleiri þekki ég upp í kirkjugarði. Þar á ég marga vini sem reyndust mér vel. Ég kem aldrei heim á Krók án þess að fara upp í garð, labba um og rifja upp góðar minningar og vináttu. Sumir þeirra sem hvíla uppi í garði bera meiri ábyrgð en aðrir á því hvaða mann ég hef að geyma.

Takk fyrir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir