Bæjarhátíðin Hofsós heim haldin um næstu helgi

Bæjarhátíðin Hofsós heim verður haldin í sjötta næstkomandi helgi, 23. – 25. júní nk. Hátíðin var fyrst haldin árið 2018 og kom í stað Jónsmessuhátíðarinnar sem þá hafði verið haldin á Hofsósi í fjöldamörg ár.

Feykir hafði samband við Völu Kristínu Ófeigsdóttur, eina af skipuleggjendum hátíðarinnar, og forvitnaðist um tilurð og tilgang hátíðarinnar.

„Tilgangur hátíðarinnar er auðvitað sá að búa til vettvang þar sem íbúar á Hofsósi og Skagafirði öllum geti átt skemmtilega helgi í fallegasta firðinum. Hingað kemur fjöldinn allur af gestum, brottfluttum Hofsósingum og öðrum Skagfirðingum til að njóta samveru. Vissulega hefur hátíðin jákvæð áhrif á svæðið, bæði fjár- og félagslega þegar íbúafjöldi margfaldast. Við sem störfum í nefndinni teljum að hún hafi jafnframt jákvæð áhrif á ímynd svæðisins, bæði fyrir gesti og þá sem hér búa.“

Hofsós heim varð til eftir að Jónsmessunefnd, sem hélt Jónsmessuhátíð með miklum sóma, lét af störfum. Skyndilega stóðu Hofsósingar frammi fyrir því að bæjarhátíð á Hofsósi myndi mögulega leggjast af.

„Hópur fólks tók málin í sínar hendur, safnaði liði og hélt fyrstu Hofsós heim hátíðina 2018. Íbúasamtökin Byggjum upp Hofsós og nágrenni hafa svo séð um hátíðina síðan. Fyrir hagnaðinn hefur svo verið keypt eitthvað sem nýtist samfélaginu, t.d. danskennsla fyrir börn og fullorðna, frisbíkörfur, ýmislegt fyrir Höfðaborg, leikföng fyrir leikskólann og aparólu, svo eitthvað sé nefnt. Hátíðin hefur þróast þannig að fyrirtæki og einstaklingar sjá hag sinn í því að hafa eitthvað upp á að bjóða þessa helgi. Þannig þróast hún vonandi áfram, að nefndin sinni alltaf minna hlutverki á ári hverju og sjái að lokum bara um að taka saman viðburði og uppákomur og skapa þannig heildræna dagskrá án þess að þurfa að framkvæma alla dagskrárliði sjálf.“

Hvernig hvetjið þið íbúa Hofsós og nærumhverfi til að vera virkir þátttakendur í hátíðinni og hvernig hefur það gengið?

„Við höldum íbúafundi, fyrir og eftir hátíð. Margir eru komnir með föst hlutverk og það er ósköp þægilegt. Hins vegar auglýsum við á hverju ári eftir nýju fólki í undirbúningsnefnd og höfum ekki fengið sérstaklega góðar undirtektir, en fólk sem á sumarhús hér hefur sýnt aukinn áhuga og tekur þá þátt í undirbúningi gegnum fjarfundarbúnað eða samfélagsmiðla. Við höfum t.d. auglýst núna eftir aðilum til að sjá um fótboltamót og gönguferð en gengur ekki nægilega vel að fá sjálfboðaliða í þessi verkefni, þau eru auglýst laus hér með. Það þarf margar hendur til að vinna að svona hátíð og það er lýjandi að vera endalaust betlandi um aðstoð. Að vera sjálfboðaliði, snýst svolítið um að bjóða sig sjálfur fram.“

Hverskonar undirbúning þarf til að halda hátíðina?

„Undirbúningur fyrir næstu hátíð hefst vanalega þegar við erum búin að gera upp liðna hátíð. Við reynum að hlusta á óskir fólksins sem mætir á íbúafundi og taka ákvörðun um næstu hátíð út frá þeim. Þá þarf að panta hljómsveitir og listafólk með góðum fyrirvara. Svo þarf að sækja um styrki en Uppbyggingarsjóður SSNV, Menningarsjóður KS og Sveitarfélagið Skagafjörður hafa verið helstu styrktaraðilar hátíðarinnar undanfarin ár. Það er einnig frekar tímafrekt að láta dagskrána smella saman og vera í samskiptum við allt fólkið sem kemur fram á hátíðinni. Eins þarf að útbúa markaðsefni og auglýsa.“

En að hátíðinni í ár. Hvað verður um að vera á Hofsós Heim árið 2023?

„Endurnýtingarmiðstöðin Verðandi heldur Hringrásarhátíð þessa helgi og viðburðir á hennar vegum fléttast inn í dagskrá Hofsós heim. Helst má nefna handverkssýningu Helgu Friðbjörns, sýningu Sigrúnar craftivista og fyrirlestur frá Landvernd. Á dagskránni er einnig lambalærispartý Retro Mathúss, frisbígolfmót og kennsla, tónleikar með Bjartmari Guðlaugs og Bergrisunum, músíkbingó Fanneyjar Birtu, dansleikur með hljómsveitinni Steinliggur, kjötsúpa, markaðir, bjórjóga, helgistund í Grafarkirkju, Pílukastfélag Skagafjarðar með kynningu, sundleikfimi, körfuboltaþrautir, fimleikabraut, pubquiz, Tónadans fyrir yngstu krílin, varðeldur og svo auðvitað eitthvað fleira sem er að gleymast. Ekki má gleyma skemmtilegum afþreyingarmöguleikum í nágrenninu t.d. Húsdýragarðinum á Brúnastöðum, Hestaleigunni í Langhúsum og Samgönguminjasafninu í Stóragerði. Svo er um að gera að kíkja í Dalakaffi, Kaffi Hóla eða í litlu Sveitabúðina á Brúnastöðum.“

Um tímamót eru að ræða hjá undirbúningsnefnd hátíðarinnar en hún hyggst stíga til hliðar og leyfa öðrum að taka við keflinu.

„Við í undirbúningsnefnd viljum þakka samstarfsfólki og styrktaraðilum liðinna ára. Jafnframt viljum við bjóða nýtt fólk velkomið til starfa en við ætlum að stíga til hliðar og leyfa áhugasömum að taka við. Þetta er helst gert til að hátíðin haldi áfram að þróast og svo megi fá ferskar hugmyndir frá nýju fólki. Auðvitað styðjum við áfram við nýja nefnd og hjálpum eins og við getum við Hofsós heim 2024. Nú er tækifærið að láta ljós sitt skína.“

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir