Helgi Ragnarsson lýkur störfum í samlaginu eftir 50 ára starfsferil - „Ætli ég geri ekki upp jeppann eina ferðina enn“

F.v. Magnús Freyr Jónsson forstöðumaður, Ingimar Vilhjálmsson fv. starfsmaður samlagsins til fjölda ára, Snorri Evertsson fv. samlagsstjóri, Helgi Ragnarsson, Þórólfur Gíslason Kaupfélagsstjóri og Jón Þór Jósepsson framleiðslustjóri. Mynd: SMH
F.v. Magnús Freyr Jónsson forstöðumaður, Ingimar Vilhjálmsson fv. starfsmaður samlagsins til fjölda ára, Snorri Evertsson fv. samlagsstjóri, Helgi Ragnarsson, Þórólfur Gíslason Kaupfélagsstjóri og Jón Þór Jósepsson framleiðslustjóri. Mynd: SMH

Mjólkurfræðingurinn Helgi Ragnarsson lauk sínum seinasta vinnudegi í mjólkursamlagi Kaupfélags Skagfirðinga fimmtudaginn 31. Maí og þar með 50 ára starfsferli þar. Var Helga þakkað fyrir vel unnin störf í samlaginu með blómvendi og köku í kaffinu. Blaðamaður Feykis settist niður með Helga í lok seinasta vinnudagsins.

Allt hófst þetta í maí árið 1972 þegar Helga vantaði sumarvinnu. Hóf hann þá störf í samlaginu og var ekki aftur snúið. „Svo vann ég hérna á sumrin í alla veganna tvö sumur, svo fór ég að vinna hérna alveg upp frá því. Fer síðan á samning 1976 eða 7, ég man þetta ekki alveg.“

Fyrir páskana 1979 fór Helgi út til Jótlands að vinna í mjólkursamlagi þar og í framhaldi af því til Óðinsvé að nema mjólkurfræði. Hann útskrifaðist sem mjólkurfræðingur ári seinna, árið 1980 en á þeim tíma stóð Íslendingum til boða að klára námið fyrr en gekk og gerðist. „Þetta var bara svona eins og iðnskóli, flestir byrjuðu í ágúst og tóku kannski mánuð í kúrs, svo fóru þeir út að vinna, koma síðan aftur kannski árið eftir og þá voru þeir tvo mánuði í skólanum og svona. En við Íslendingarnir tókum þetta allt í einu, við vorum með praktísina bara hérna og unnum þarna úti í hálft ár og svo var skólinn bara tekinn allur.“

Helgi segir námsárið í Danmörku hafa verið mjög eftirminnilegt en að sama skapi mjög krefjandi. „Þetta var mjög svona krefjandi, vegna þess að ég hafði aldrei farið út og þetta var á dönsku sem manni fannst ekkert of spes og ég var náttúrulega kominn í sambúð, og sonur minn Gunnar var hérna smágutti þegar ég fer, fæddur 1977, þannig að þau voru bara hérna heima. Þetta gerist ekki í dag, þannig að þetta var svona viss áskorun. Núna fer enginn út að læra nema bara taka fjölskylduna með.“

Eftir 50 ára starfsferil í samlaginu segir Helgi að allar breytingarnar í framleiðslunni standi upp úr. „Það eru nú allar þessar breytingar og allt þetta dæmi sem er búið að vera hérna. Brjóta niður og stækka ostalagerinn, og byggja nýtt samlag, þetta er náttúrulega mjög mikil vinna og hefur breyst rosalega vegna þess að við vorum ekki með það mikla mjólk hérna lengi vel áður, nú er þetta alveg kúvent, mjólkin hefur að minnsta kosti þrefaldast.“

Þegar blaðamaður falast eftir eftirminnilegum sögum frá tímanum í samlaginu minnist Helgi þess helst þegar unnið var um helgar og því síðan hætt. „Sem má segja? Já það er nú það. Maður man nú varla ekki mikið svoleiðis , vegna þess að þetta var náttúrulega bara, eins og það var, við vorum ungir og hressir hérna. Mjög oft mikið fjör, vegna þess að hér var unnið allar helgar, menn mjög hressir, oft. Þetta var nú mjög þægilegur vinnustaður þannig séð. Það var alltaf unnið á laugardögum, alla laugardaga, og svo var sunnudögum skipt. Þannig ein mesta breytingin núna á seinni árum fannst mér þegar ég hætti að vinna á laugardögum.“

Helgi hætti daginn sem þetta viðtal var tekið og er hann er spurður hvert seinasta verkefnið hans hafi verið segir Helgi daginn ekki hafa verið frábrugðin öðrum dögum seinustu 50 árin. „Bara þetta sama, ég hef keyrt vélasalinn hérna í áraraðir, séð um gerilsneyðingarbúnað, svo er maður búinn að gegna eiginlega öllum stöðum hér innanhúss. Bara alveg frá því að pakka mjólk og alveg út í eitt.“

En hvað ætli hafi orðið til þess að árin urðu 50? „Fyrir það fyrsta, er það nú þannig að hérna eru ekki það mörg mjólkursamlög, og hérna áður fyrr var ekkert mikið um það að menn væru að fara í önnur störf. Sem mjólkurfræðingur, þá vannstu bara hér eða á Akureyri, ég sótti um vinnu á Akureyri og það munaði litlu að ég færi þangað. En svona breytist dæmið, það koma konur inn í spilið og annað sem stoppar mann af.“

En hvað tekur núna við? Helgi ætlar að slaka á til að byrja með en segist alltaf hafa nóg að gera. „Ég er náttúrulega búinn að vera í jeppamennsku í fjöldamörg ár, svo náttúrulega get ég smíðað og ég get gert allan fjandann. Þannig ég hef ekkert verið í vandamálum með það. Ég hef sagt svona í flimtingum oft, ætli ég geri ekki upp jeppann eina ferðina enn, svona til að byrja með, dytta að húsinu og eitt og annað. Þetta verður bara að taka sinn síma, ég er náttúrulega bara að fara í sumarfrí til að byrja með og svo verður þetta bara að þróast. Eins og Jón Þór sagði, þú verður kominn eftir sex vikur aftur.“

Helgi er þó spenntur fyrir framhaldinu og jánkar því við blaðamann að lífið sé rétt að byrja en rútínunni verður ekki breytt svo glatt. „Þú verður að athuga það að ég er búinn að gera þetta í áraraðir, að fara á fætur klukkan hálf fjögur á hverjum einasta morgni. Ég mætti hingað fjögur í morgun og vinn hér til tvö-þrjú á daginn, þannig að það verður rosalegt að vinda niður af svona löguðu.“

Að lokum er hann spurður hvort hann vakni klukkan fjögur í fyrramálið? „Þú þarft nú ekkert að spyrja að því, það er alveg pottþétt, eða hálf fjögur. Þetta er orðin algjör, alveg svakalega föst rútína. Þú bara snýrð henni ekkert niður einn tveir og þrír.“

Að lokum vill Helgi skila kveðju til starfsmanna, gamalla og nýrra sem hann hefur unnið með og þakkar samstarfið.

 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir