Hagnaður ársins 2023 hjá KS var 5,5 milljarðar króna
Aðalfundur Kaupfélags Skagfirðinga var haldinn í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð þriðjudaginn 23. apríl. Á áttunda tug manna sátu fundinn en kjörnir fulltrúar voru eitthvað á sjötta tuginn auk starfsmanna og gesta. Ekki lágu stórar ákvarðanir fyrir fundinum en fram kom að KS skilaði 5,5 milljarða króna hagnaði árið 2023 en eignir kaupfélagsins voru bókfærðar á 88,6 milljarða í árslok 2023 og eigið fé nam 58,6 milljörðum.
Í frétt á vef Viðskiptablaðsins kemur fram að tekjur KS-samstæðunnar jukust um 4% milli ára og námu 52,6 milljörðum króna á árinu 2023. Rekstrargjöld jukust um 3,7% og námu 44,3 milljörðum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 4,1% milli ára og nam 8,4 milljörðum.
Ársverk hjá kaupfélaginu sjálfu voru 180 en hjá samstæðunni í heild voru 958 ársverk í fyrra.
Athygli vekur að hagnaður milli ára jókst um 3,8 milljarða en hagnaður KS árið 2022 var um 1,7 milljarðar króna. „Stærsta ástæðan [...] er að gerð var leiðrétting á þýðingarmun í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum (VSV), sem KS á 32,9% hlut í. Það hafði þau áhrif að eignarhluturinn hækkaði um tæplega 1,8 milljarða að virði. Bókfært verð þriðjungshlutar KS í Vinnslustöðinni hækkaði um þrjá milljarða, úr 10,8 í 13,8 milljarða á milli ára. Þá hafði veruleg lækkun á hlutabréfaverði Iceland Seafood Inter-national árið 2022 neikvæð áhrif á rekstrarreikning KS það árið upp á 2,4 milljarða króna,“ segir í frétt vb.is.
Ásta Pálmadóttir ný inn í stjórn KS
Stjórn KS er kjörin til þriggja ára í senn og var að þessu sinni kosið um tvo, Þorleif Hólmsteinsson frá Þorleifsstöðum og Guðrúnu Sighvats-dóttur frá Sauðárkróki. Var Þorleifur endurkjörinn í stjörn en þar sem Guðrún gaf ekki kost á sér áfram var Ásta Pálmadóttir kjörin í hennar stað. Eftir sem áður er Bjarni Maronsson stjórnarformaður KS en aðrir stjórnar-menn, auk Þorleifs og Ástu, eru Herdís Á. Sæmundardóttir, Sigríður Gunnarsdóttir, Atli Már Traustason og Hjörtur Geirmundsson.
Þá voru kosnir þrír varamenn í stjórn til eins árs; það voru Ingi Björn Árnason á Marbæli, Viggó Jónsson Sauðárkróki og Guðrún Lárusdóttir frá Keldudal.
Samkvæmt upplýsingum Feykis hélt Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri þrumuræðu á fundinum og blés sínu fólki byr í brjóst. Þá má geta þess að Guðni Ágústsson flutti sömuleiðis ræðu, sló vitaskuld á létta strengi eins og honum er lagið, en hann var á fundinum sæmdur gullmerki KS.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.