Guðmundur góði biskup meðal eftirrétta á Kaffi Hólum
Veitingalífið glæðist með sumarkomunni. Mörgum þykir gaman að fara heim að Hólum í Hjaltadal og nú er enn ríkari ástæða til að heimsækja þann fallega stað því Kaffi Hólar, í kjallara gamla skólahússins, er með opið frá átta á morgnana til níu að kvöldi alla daga.
Yfir daginn er hægt að komast í dýrindis bakkelsi og létta rétti en frá kl. 17 er hægt að panta kvöldverð en í boði eru fjórir forréttir, fjórir aðalréttir og þrír eftirréttir. Í aðalréttum er hægt er að velja um lambasteik, Hólaborgara, Hólableikju og Það besta frá Hólum. Allt helsta hráefni á matseðli Kaffi Hóla er úr héraði.
„Við erum með hádegishlaðborð alla virka daga,“ segir Gústaf Gústafsson, sem sér um reksturinn sem er í nafni Hjaltadals ferðaþjónustu, og hann bætir við að kjötsúpa, brauð og salatbar sé í boði allan daginn. Meðal eftirrétta á Kaffi Hólar er Guðmundur góði biskup. „Það er hafrakaka sem við þróuðum út frá mataræði kirkjunnar á 13. öld. Hún hefur til að bera mildi og mýkt eins og biskupinn en megin innihaldsefni eru hafrar, döðlur, gráfíkjur og auðvitað þeyttur rjómi.“ Þetta verða allir að prófa.
Það er huggulegt á Kaffi Hólum, rólegt andrúmsloft og fallegt um að litast á þessum sögufræga stað.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.