Gekk á ýmsu í Ljómarallý í Skagafirði
Það gekk á ýmsu þegar 3. umferð Íslandsmótsins í rallakstri fór fram í Skagafirði sl. laugardag. Ljómarallý í Skagafirði hefur verið árviss viðburður, síðustu helgi fyrir verslunarmannahelgi.
Tólf áhafnir voru skráðar til leiks og veður var með besta móti þegar lagt var af stað frá Varmahlíð á laugardagsmorguninn. Eknar voru fjórar sérleiðir um Mælifellsdal og tvær um Vesturdal.
Íslandsmeistararnir frá því í fyrra Gunnar Karl Jóhannesson og Ísak Guðjónsson leiddu keppnina eftir hraðan akstur á fyrstu sérleið en lentu í að sprengja dekk og tefjast á annarri sérleið. Það sem eftir lifði dags þurftu þeir því að vinna sig aftur upp tímatöflu keppninnar. Náðu þeir að keyra sig upp í fyrsta sætið og halda því.
Í öðru sæti urðu Jósef Heimir Guðbjörnsson og Sævar Sigtryggson eftir jafnan og áfallalítinn akstur. Þeir báru jafnframt sigur úr býtum í B flokki.
Í þriðja sæti urðu Baldur Arnar Hlöðversson og Adam Máni Valdimarsson. Baldur Arnar er öllum hnútum kunnugur á skagfirskum sérleiðum, enda fyrrum Íslandsmeistari 2019. Adam Máni var hins vegar að keppa í sinni fyrstu keppni í Skagafirði, nú á sínu fimmtánda aldursári. Baldur Arnar og Adam Máni hrepptu einnig fyrsta sæti í AB varahlutaflokki.
Í öðru sæti í AB varahlutaflokki urðu feðgarnir Hlöðver Baldursson og Jón Óskar Hlöðversson. Þess má geta að Hlöðver er faðir Baldurs Arnars sem sigraði flokkinn svo vænta má þess að umræður í fjölskylduboðum geti verið akstursíþróttatengdar.
Þriðja sæti í AB varahlutaflokki kom í hlut Daníels Victors Herwigssonar og Úlfars Alexandre Rist en þeir hafa nú, líkt og Hlöðver og Jón Óskar, náð að ljúka öllum keppnum sumarsins í stigasæti.
Það er óhætt að segja að akstur um Mælifellsdal og Vesturdal sé krefjandi og fimm áhafnir urðu frá að hverfa eftir útafakstur og bilanir keppnistækja. Góður öryggisbúnaður og markvisst eftirlit með honum sáu þó til þess að allir komu heilir heim eftir viðburðaríkan dag.
Næsta keppni í Íslandsmeistaramótinu í rallakstri fer svo fram á Suðvesturlandi 18. – 20. ágúst.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.