Gabby og Monica eru Stólastúlkur
Það hafa örugglega einhverjir fótboltaþyrstir saknað frétta úr herbúðum Bestu deildar liðs Tindastóls en nú í kvöld voru tvær stúlkur kynntar til leiks sem leikmenn liðsins komandi sumar. Markvörðurinn öflugi, Monica Wilhelm, sem lék með liðinu síðasta sumar við góðan orðstýr endurnýjar kynnin og þá hefur nýliðinn Gabby Johnson, sem síðast spilaði fyrir Virginia Tech háskólann, skrifað undir samning við Tindastól.
Gabrielle Kristine Johnson er fædd 16. janúar 1999, er elst þriggja systkina og er dóttir Nikulásar og Kellýar Johnson. Hún hefur gaman að lestri, söng og að æfa samkvæmt rannsóknarvinnu Feykis. Gabby spilar á miðjunni þannig að það má gera ráð fyrir að hún fylli skarð Hönnuh Cade sem hún ætti að smellpassa í því svo virðist sem þær séu jafn háar. Það lítur út fyrir að samningur hennar við lið Tindastóls hafi verið frágenginn fyrir nokkru síðan því í frétt á netsíðunni Hokiesports.com frá því 10. nóvember sl. lýsir Gabby því yfir að það að semja við lið Tindastóls sé eitt það besta sem hafi hent hana.
„Ég er óendanlega þakklát fyrir óbilandi stuðning og hjálp frá fjölskyldu minni, vinum, þjálfurum og liðsfélögum. Mig hefur dreymt um að spila atvinnuknattspyrnu síðan ég var 8 ára. Allar fórnirnar, minningarnar, áskoranirnar og ánægjuleg augnablik hafa fært mig á þennan stað. Það er ótrúlegt að segja að draumur minn sé að rætast,“ segir Gabby í viðtalinu en hún segir ferlið við á komast í atvinnumennsku ekki vera einfalt verkefni.
Markvörðinn Monicu þarf ekki að kynna fyrir stuðningsfólki Tindastóls; hávaxin, sterk og skynsöm milli stanganna. Hún kom öflug inn í lið Tindastóls fyrir síðast tímabil, stór karakter sem lét ekki á sig fá þó hún þyrfti að feta í fótspor Amber Michel sem sömuleiðis var happafengur fyrir Stólastúlkur.
Þær Monica og Gabby eru væntanlegar á Krókinn í byrjun febrúar og þá væntanlegar klárar að tækla leiki í Lengjubikarnum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.