Framkvæmdir við skólamannvirki tefjast í Skagafirði
Steinn Leó Sveinsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, kynnti stöðu á framkvæmdum við leik- og grunnskóla í Varmahlíð á fundi fræðslunefndar Skagafjarðar fyrir helgi. Auk þess hann fór yfir stöðu framkvæmda við aðrar skólabyggingar í sveitarfélaginu en í ferli eru viðhaldsframkvæmdir bæði við Árskóla og Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi.
Í fundargerð nefndarinnar segir að framkvæmdir við leik- og grunnskóla í Varmahlíð hafi tafist þar sem auglýsa þurfti aftur deiliskipulag svæðisins ásamt breytingum á aðalskipulagi en Skipulagsstofnun kom með athugasemd um að núgildandi deiliskipulag samræmdist ekki aðalskipulagi. Skipulagstillögurnar eru auglýstar frá 7. júní til og með 19. júlí 2023. „Aðaluppdrættir eru klárir, séruppdrættir eru langt komnir og vinna er í gangi við lóðahönnun og innréttingar. Þá er stefnt að jarðvegsútboði þegar skipulag er staðfest og svo útboði á uppsteypu og þaki í kjölfarið,“ segir í fundargerð fræðslunefndar.
Steinn Leó segir í samtali við Feyki að verið sé að klára verkkönnun en deiliskipulag ennþá í vinnslu. „Athugasemdafrestur rennur út 19. júlí og við gerum ráð fyrir því að senda frá okkur útboðsgögn um leið og við erum komin með teikningar sem eru stimplaðar en ekki er hægt að ganga frá slíku fyrr en deiliskipulagið er frágengið, sem gæti verið í kringum mánaðamót júlí ágúst. Það er ekki hægt að ganga frá endanlegum teikningum né bjóða neitt út svo lengi sem þær liggja ekki fyrir endanlega uppáskrifaðar,“ segir Steinn Leó. „Þó teikningarnar liggi fyrir þá er ekki hægt að samþykkja þær nema skipulagsmálin séu frágengin.“
Hvað fyrirhugaðri byggingu íþróttahúss á Hofsósi varðar segir Steinn þær framkvæmdir vera í bið meðan verið er að lagfæra skólabygginguna. „Það komu fram vandamál í í gamla skólanum fyrir rúmu ári síðan og er verið að vinna í því að laga það áður en farið verður í íþróttahúsið,“ segir hann en þar á meðal er verið að lagfæra fráveitulagnir, sem reyndust í verra ástandi en búist var við, og endurnýja á glugga, einangrun og klæðningu útveggja ásamt endurnýjun á þakklæðningu fyrir stóran hluta hússins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.