Framkvæmdir við Hofsóshöfn hafa aukið kyrrð og öryggi hafnarinnar
Nú á vordögum lauk framkvæmdum við höfnina á Hofsósi. Framkvæmdin hefur aukið kyrrð og öryggi hafnarinnar til muna sem smábátahafnar, að sögn Sigfúsar Inga Sigfússonar, sveitarstjóra Skagafjarðar. Það voru Víðimelsbræður sem unnu verkið að undangengnu útboði sem Vegagerðin stóð fyrir. Verklok voru í apríl 2023.
Hofsóshöfn er opin fyrir úthafsöldu úr NNV – NNA annars vegar og svo suðvestlægri vindöldu úr Skagafirðinum. Þannig háttar til að Aðalgarðurinn veitir skjól fyrir úthafsöldunni en Árgarðurinn fyrir suðvestan vindöldunni. Samkvæmt upplýsingum sem sveitarstjóri gaf Feyki þá er stálþilið og bryggjan innan á Aðalgarðinum orðið mjög illa farið. Vegna þess og vegna mikillar ókyrrðar við Aðalgarðinn, sem og breytt nýting hafnarinnar, hefur orðið til þess að sá kantur er lítið notaður í dag.
Hafnarbætur sem ráðist var í nýverið miðuðust þar af leiðandi að því að bæta kyrrð innan Árgarðs í innri hluta hafnarinnar og eins að því að skoða möguleika á að bæta við bryggjum. Í kjölfarið kom Vegagerðin, í samráði við notendur hafnarinnar og hafnarstjórn Skagafjarðahafna, með tillögur að breytingum á höfninni.
Helstu verkþættir voru:
- Lenging Árgarðs, þrengir innsiglingu og eykur til muna kyrrð innan hafnar. Helstu magntölur, 4.000 mᶟ af grjóti og sprengdum kjarna.
- Gerð innri skjólgarðs, í kjölfar lengingar Árgarðs. Helstu magntölur, 1.500 mᶟ af grjóti og sprengdum kjarna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.