Félagsleikar Fljótamanna um næstu helgi

Félagsleikar Fljótamanna verða haldnir þriðja sinni dagana 14. til 16. júlí 2023. Um er að ræða samveruhátíð íbúa og hollvina Fljóta, sannkölluð hæglætishátíð. Hátíðin fer fram í félagsheimilinu á Ketilsási og víða í Fljótum.

Hátíðin hefst með Íslandsmóti í félagsvist á föstudagskvöldinu, en sú listgrein hefur verið og er enn stunduð af kappi í Fljótum eins og víða í sveitum lands. Krýndur verður sigurvegari í kvenna og karlaflokki.

Dögurðarfundur verður að morgni laugardags en hann hefst með ávarpi Kristjáns L. Möller fv. ráðherra og Alþingismanns. Kristján settist á þing 1999 og var fyrsta kjötímabilið þingmaður fyrir Norðurland vestra, en frá 2003 til 2016 þingmaður Norðurausturkjördæmis. Kristján var samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra frá 2007 til 2010. Í framhaldi af ávarpi Kristjáns verða haldin tvö erindi sem tengjast útivist Fljótamanna, annars vegar erindi Björns Z. Ásgrímssonar um gönguleiðir í Fjallabyggð og Fljótum, en Björn gjörþekkir leiðirnar og hefur gefið út bók um þær og önnur er í vinnslu. Í tengslum við kynningu Björns verður sýnd yfirlitsupptaka af einni gönguleiðinni sem Halldór G. Hálfdánarson bóndi á Molastöðum hefur unnið með flýgildi sínu, en verður hún jafnframt gerð aðgengileg almenningi á netinu. Hins vegar erindi Kristínar Sigurrósar Einarsdóttur um sundmennt Fljótamanna, en löng og áhugaverð saga er um þá íþróttaiðkun í Fljótum. Að því búnu mun Guðjón Ragnar Jónasson segir eina kindasögu úr Fljótum, sem höfð er eftir Fljótakonunni Sigurjónu Björgvinsdóttur. Sigurjóna býður síðan gestum við lok fundar að spá í bolla. Fundarstjóri er Herdís Á. Sæmundsrdóttir.

Eftir hádegi á laugardag býður Björn Z. Ásgrímsson upp á göngutúr og leiðsögn um eftir hestagötum við Hraun, um Heljartröð og niður að Hraunkrók. Reiknað er með að túrinn taki um þrjár klukkustundir, en hægt er að fara hluta ferðarinnar hvort heldur sem er ofan eða neðan þjóðvegar. Á hestabýlinu Langhúsum er öllum gestum boðið upp á vöfflukaffi og teymt verður undir börnum. Jakob Birgisson uppistandari býður upp á samtal um uppistand og á Sólgörðum býður Sóti Summit upp á flotstundir. Á Brúnastöðum er hinn einstaki dýragarður opin alla helgina og hægt að næla sér í góðgæti, m.a. geitaost, í Litlu Sveitabúðinni. Þá er hægt að nýta sér þjónustu KS á Ketilási alla helgina og að sjálfsögðu skreppa í sund á Sólgörðum.

Á laugardagskvöldinu er boðið upp á kvöldvöku og dans. Skagfirðingurinn og Fljótamaðurinn Helgi Sæmundur byrjar kvöldið ásamt gestum með nokkrum velvöldum sveitalögum, þá fer Jakob Birgisson með gamanmál og hinn landsþekkti tónlistarmaður Halldór Gunnarsson þenur nikkuna við fjöldasöng. Loks stígur Húsbandið Ketill á stokk og leikur fyrir dansi til kl. eitt, en það er skipað einvala tónlistarfólki, m.a. Vestur-Fljótamanninum Haraldi Þorsteinssyni bassaleikara.

Á sunnudagsmorgni verður þreytt Fljótahlaupið, en í boði er að hlaupa 3,3 km. um Ólafsfjarðarveg eða 13,3 km. hringleið um Holtsalinn. Jafnframt er í boði að fara í göngutúr með Jóhannesi bónda á Brúnastöðum um landareignina. Að því búnu býður Kvenfélag Fljóta gestum og gangandi upp á kjötsúpu, en þar með lýkur Félagsleikum Fljótamanna 2023. Hátíðin er í boði Íbúa- og átthagafélags Fljóta og nýtur hún m.a. styrks frá Sóknaráætlun Norðurlands vestra. Ókeypis er á þá viðburði sem hátíðin skipuleggur fyrir utan kvöldvöku, en aðgangseyrir þar er 2.000 kr. Ágóði af hátíðinni rennur í góð mál, ekki síst til að bæta aðstöðu og styrkja félagsstarf ungs fólks í Fljótum.

Nánari upplýsingar veitir Sjöfn Guðmundsdóttir, formaður Íbúa- og átthagafélags Fljóta.
Sími: 8993183 / Netfang: Reykjarholl3@gmail.com

 

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir