Faxi á Faxatorgi lagfærður - Færður úr steypu í brons
Í tilefni af 100 ára afmæli listamannsins Ragnars Kjartanssonar hefur sveitarstjórn Skagafjarðar ákveðið að láta lagfæra listaverkið Faxa á Faxatorgi. Faxi er sagður með mikilvægari verkum á markverðum ferli hans. Verður höggmyndin færð af stalli sínum, hæfð til steypu í brons svo hægt verði að varðveita hana án viðhalds til langs tíma. Einnig verður stöpullinn sem Faxi stendur á endurnýjaður.
Hefst ferðalag Faxa á því að fara til Reykjavíkur þar sem hann verður hafður til sýnis á Hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum dagana 12. – 27. ágúst. „Sýningin er samsýning myndhöggvara sem tengdust Ragnari vináttuböndum, voru samstarfsmenn hans eða nutu hvatningar hans á ýmsan hátt,“ segir á vefsíðu Sambands íslenskra myndhöggvara um sýninguna.
Afkomendur Ragnars munu kosta lagfæringu á höggmyndinni svo Faxi muni nú líta vel út á sýningunni áður en hann heldur til Þýskalands í frekari andlitslyftingu. Ætla má að þetta taki í heildina eitt, til eitt og hálft ár að sögn Einars E. Einarssonar, formanns byggðarráðs Skagafjarðar, svo líklegt er að Faxi komi sér á ný fyrir á nýjum stöpli á Faxatorgi, síðsumars 2024.
Forsaga þess að Faxi var getinn er sú að árið 1969 lagði Menningarsjóður Sparisjóðs Sauðárkróks fram allstóra fjárupphæð í því skyni að koma upp listaverki einhvers staðar á opnu svæði í bænum, líkt og segir í frásögn Stefáns Magnússonar í Skagfirðingabók árið 1997, en Menningarsjóðurinn gerði ekki tillögu að verki né stað. Árið 1971 voru svo 100 ár frá því fyrsta hús var byggt á Sauðárkróki og af því tilefni ákvað bæjarstjórn Sauðárkróks að gerð skyldi höggmynd af hesti til minningar um þessi merku tímamót. Var því verkið kostað með framlaginu frá Menningarsjóði Sparisjóðsins og framlagi Sauðárkróksbæjar. Jafnframt ákvað bæjarstjórnin að höggmyndinni skyldi verða valinn staður á Faxatorgi. Til verksins var ráðinn, líkt og hér áður hefur komið fram, Ragnar Kjartansson myndhöggvari.
Fótstallinn sem Faxi stendur á gáfu iðnaðarmenn á Sauðárkróki. Blaðamaður Feykis stingur því upp á því á léttum nótum, hvort iðnaðarmenn á Sauðárkróki í dag ættu ekki að feta í spor forvera sinna og gera slíkt hið sama með nýja stöpulinn. Það yrði að minnsta kosti skemmtilegur nýr kafli í sögu Faxa.
Við vígslu Faxa á afmælishátíð Sauðárkróks árið 1971 F.v. Ragnar Kjartansson höfundur Faxa og Hákon Torfason þáverandi bæjarstjóri Sauðárkróks. Mynd: Héraðsskjalasafn Skagfirðinga, Guðjón Ingimundarson: Skjalasafn.
Kom til greina að nefna torgið Hesthústorg
Faxi stendur sem fyrr segir við Faxatorg, og dregur nafn sitt líklegast af því. Faxi var vígður á 100 ára afmæli Sauðárkróks árið 1971 en elsta heimildin á timarit.is, þar sem minnst er á Faxatorg á Sauðárkróki er frá árinu 1964.
Við gerð þessarar greinar varð blaðamaður forvitinn um hvort torgið sé nefnt eftir einhverjum ákveðnum hesti en svo virðist ekki vera. Hafði ég samband við Guðmund Sveinsson sem gluggaði í gömlum gögnum föður síns, Sveins Guðmundssonar, þar sem meðal annars kemur fram að til greina hafi komið að nefna torgið Hesthústorg.
„Eftir smá skoðun með Faxatorg virðist sem nokkrar umræður/deilur hafi verið um nafnið á torginu í bæjarstjórn. Menn samt sammála um að kenna það hestum þar sem hið stórmerka hús Sýsluhesthúsið stóð við torgið (það merka hús átti náttúrulega aldrei að rífa). Kom nafnið Hesthústorg til greina en menn sættust á Faxatorg. Dettur mér helst í hug að hið stórmerka bók Faxi eftir dr. Brodda Jóhannesson frá Silfrastöðum, hafi kannski ráðið þar einhverju um nafngiftina, en sú bók var í hávegum höfð. Torgið er örugglega ekki nefnt eftir neinum ákveðnum hesti,“ segir Guðmundur Sveinsson.
Fengið jákvæð viðbrögð
Einar E. Einarsson, formaður Byggðarráðs, telur nauðsynlegt fyrir samfélagið að viðhalda svona merkum minnisvörðum eins og höggmyndin af Faxa er.
„Við megum ekki láta svona hluti grotna niður, við verðum að taka eitthvað fyrir á hverju ári og laga og bæta. Umræða um viðhaldsþörf á Faxa hefur verið í nokkurn tíma en við ákváðum svo núna að fara í verkið og klára það. Eins erum við að gera upp gangstéttina á Kirkjutorginu en hún var kominn til ára sinna og fleira mætti nefna. Eina leiðin til að viðhalda svo mörgu í umhverfinu er að taka þessi verkefni jafnt og þétt, eitt og eitt, litla skammta á hverju ári og við teljum að það sé svigrúm í rekstrinum til að gera þetta núna.“
Einar segir að umræðan um að gera þetta hafi verið mikil og að hann hafi fengið afar jákvæð viðbrögð frá Skagfirðingum um að sú ákvörðun skuli hafa verið tekin að endurgera höggmyndina og laga.
„Ég hef hitt fólk á liðnum mánuðum og árum sem hefur talað við mig og spurt: „Einar, hvenær ætlið þið að láta laga höggmyndina Faxa? Hún er að grotna niður, þið verðið að sjá sóma ykkar í því að laga hana.“ Svo var þetta tekið upp af umhverfis- og samgöngunefnd og bókað um þetta þar og við í meirihluta sveitarstjórnar ákváðum að fylgja eftir þeirri umræðu og lögðum þessa tillögu fram sem var svo samþykkt af meirihlutanum,“ segir Einar.
Aðeins farinn að láta á sjá. Mynd: SMH
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.