Drósir og dýrlingar – málþing í Kakalaskála
Laugardaginn 26. ágúst verður haldið málþing í Kakalaskála í Blönduhlíð sem hefst kl. 14. Yfirskrift málþingsins er Drósir og dýrlingar. Fyrirlesarar eru að þessu sinni þrír, allt Skagfirðingar eða af skagfirskum ættum.
Sölvi Sveinsson mun varpa ljósi á viðhorfið til Guðmundar góða Arasonar biskups, bæði í samatíma hans og nútímanum, og svara spurningunni hvort hann hafi verið hetja eða skúrkur.
Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir mun fjalla um bækur sínar Aldrei nema kona (2020) og Aldrei nema vinnukona (2022) en í þeim lýsir hún viðburðaríku lífi skagfirskra formæðra sinna á 19. öld. Í fyrirlestrinum mun Sveinbjörg fjalla um þær heimildir sem hún studdist við og það rými sem hún hafði til sköpunar.
Að lokum kynnir Nanna Rögnvaldardóttir fyrstu skáldsögu sína sem kemur út nú í haust. Sagan fjallar um ævintýralegt lífshlaup formóður hennar sem uppi var á 18. öld. Nanna mun veita innsýn í þær heimildir sem hún hafði úr að moða og hvernig skáldskapurinn læddi sér á endanum inn í frásögnina.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.