Dalakaffi er falin perla

Það er tekið vel á móti gestum sem heimsækja Dalakaffi í Unadal. MYND: ÓAB
Það er tekið vel á móti gestum sem heimsækja Dalakaffi í Unadal. MYND: ÓAB

Unadalur í austanverðum Skagafirði er ekki beinlínis í alfaraleið og alla jafna ekki margir sem hafa lagt leið sína þangað inn. Allt er þó breytingum háð og nú er komið visst aðdráttarafl í þennan fallega dal því fyrir rúmu ári opnaði Dalasetrið í fallegu umhverfi á Helgustöðum í Unadal fyrir gestum. Fyrir um mánuði var bætt um betur en eftir tveggja ára undirbúning var kaffihús opnað á staðnum og kallast Dalakaffi.

Í Dalakaffi er hægt að krækja í gómsætt bakkelsi á borð við pönnsur (með eða án rjóma), sjónvarpstertu, rjómatertur, Dalaköku dagsins og alls konar fínerí, svalandi drykki, kaffi, kakó og jafnvel eitthvað sterkara. Þá er einnig boðið upp á heitt og gott eins og grillsamlokur og Helgustaðarsúpuna sem er vegan grænmetissúpa búin til úr hráefni sem fengið er ... jú, á Helgustöðum.

Þegar blaðamann Feykis bar að garði í góðum félagsskap var Þórarinn Þórðarson, einn af staðarhöldurum, til móttöku. Hann mælti reyndar sérstaklega með Dalasúpunni (kjötsúpunni) sem í boði er. Þórarinn sagði móttökurnar hafa verið góðar frá því staðurinn var opnaður í júní og þá sérstaklega væri fólk duglegt að heimsækja Dalakaffi um helgar.

Unadalur er upp af Hofsósi, í um 3 kílómetra fjarlægð frá Siglufjarðarvegi, gestir þurfa þó kannski að vanda sig við að villast ekki inn í Deildardal. Á Dalasetrinu sjálfu er hægt að fá gistingu og hlúa að heilsunni. Sjón er sögu ríkari.

- - - - - 
Myndirnar að neðan eru ýmist teknar af blaðamanni eða fengnar af Facebook-síðu Dalaseturs ehf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir