BSRB hafnar 50.000 kr. til 60.000 kr. hækkun lægstu launa

Samningafundi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga lauk aðfararnótt mánudags án niðurstöðu. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga vísar allri ábyrgð á verkfallsaðgerðum á forystufólk BSRB.

Samninganefnd sambandsins hefur ítrekað lagt fram ný tilboð sem forysta BSRB hefur hafnað en það síðasta inniheldur í megin atriðum eftirfarandi:

  • 50.000 kr. til 60.000 kr. hækkun lægstu launa á mánuði frá 1. apríl 2023, sem nær til um helmings félagsmanna.
  • 55.700 kr. persónuuppbót þann 1. maí 2023.
  • 130.900 kr. persónuuppbót þann 1. desember 2023.

Sambandið hefur á undanförnum vikum skrifað undir kjarasamninga við fjölda stéttarfélaga. Meðal annars hefur verið skrifað undir samninga m.a. við 11 aðildarfélög BHM, Eflingu, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag grunnskólakennara og Félag leikskólakennara.

Ábyrgðin liggur hjá BSRB
Í janúar 2020 skrifuðu Starfsgreinasambandið (SGS) undir kjarasamning við sambandið með gildistíma til 30. september og launatöflu 5 sem tryggði félagsfólki þeirra launahækkun þann 1. janúar 2023. Með því að hafna sama kjarasamningi og SGS samdi um hafnaði forysta BSRB launahækkun sem þeim stóð til boða og þar með jafnstöðu starfsfólks í sömu störfum á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Samningur tekur við af samningi
Það er ljóst að tveir kjarasamningar sömu samningsaðila geta ekki verið í gildi á sama tíma (í þessu tilfelli fyrstu þrjá mánuði yfirstandandi árs). Þegar talað er um afturvirkni við kjarasamningagerð á það almennt við þegar að kjaraviðræður hafa staðið yfir í nokkurn tíma og verið er að tryggja að samningur taki við af samningi. Hins vegar er ekki um að ræða að nýr samningur geti verið afturvirkur inn á gildistíma þess samnings sem er liðinn og hefur verið að fullu efndur af hálfu sveitarfélaga.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir