Boða til mótmæla við Ráðhúsið
Leikskóla- og aðrir starfsmenn sveitarfélagsins, sem nú eru í verkfalli, hafa skipulagt mótmæli fyrir utan Ráðhús Skagafjarðar, nk. mánudag kl. 09:00.
Í viðburði mótmælanna á Facebook sem ber heitið Jafnrétti kemur eftirfarandi m.a. fram:
„Það heyrist ekkert og virðist lítill hugur í sveitarstjóra og sveitarstjórn að leggja fram tillögur til lausnar við verkfalli okkar.“
„Við leggjum því til að foreldrar og forráðamenn barna í leikskólum Skagafjarðar og almenningur mæti, börnin að sjálfsögðu velkomin með, fyrir utan Ráðhúsið á Sauðárkróki og sýnum þannig fólkinu sem hugsar um börnin okkar stuðning!“
Sveitarstjórnarfólk hefur ekki beina aðkomu að kjaraviðræðum
Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að samningsumboð sveitarfélaganna liggur hjá sambandinu.
„Að gefnu tilefni vill Samband íslenskra sveitarfélaga árétta að samningsumboð sveitarfélaganna liggur hjá sambandinu en ekki einstaka sveitarfélögum.“
„Það þýðir að sveitarfélögin fela sambandinu fullnaðarumboð til kjarasamningagerðar við viðsemjendur sína. Sveitarstjórnarfólk hefur þannig ekki beina aðkomu að kjaraviðræðum og ekki áhrif á framgöngu þeirra.“
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.