Atli gefur út plötuna Epilogue Of Something Beautiful
Tónlistarmaðurinn Atli Dagur Stefánsson gaf út sína fyrstu plötu núna í byrjun júní sem ber nafnið Epilogue Of Something Beautiful.
Atli Dagur er Króksari í húð og hár, sonur Hrafnhildar Guðjónsdóttur og Stefáns Vagns Stefánssonar. Hann býr nú úti í Englandi þar sem hann stundar bakkalárnám í lagasmíðum við ICMP (Institute of Contemporary Music Performance) skólann í London.
Atli Dagur er nú í sumar staddur á Sauðárkróki þar sem hann sér um vinnuskólann og vinnur að frekari lagasmíðum. Feykir hafði samband við Atla og fræddist um lífið í London og nýútkomna plötu. „London er mjög erfið borg að búa í að ýmsu leyti en er á sama tíma alger suðupunktur tónlistarbransans í Evrópu. Ég hef sem betur fer mjög gott félagsnet þarna úti svo ég hef getað stutt mig við vini mína. Námið hefur verið mjög fjölbreytt og merkilegt. Ég hef lært gríðarlega margt bæði um það hvernig ég get bætt mig sem tónlistarmaður en einnig allskonar hluti í kringum tónlistina. Við lærum um markaðssetningu á tónlist og tökum áfanga um tónlistarbransann og hvernig þú getur hámarkað þína möguleika á velgengni. Það hefur líka verið frábært að vera í umhverfi þar sem allir í kringum mig eru tónlistarmenn og ég læri mikið af fólkinu í kringum mig.“
Lag á plötunni með hálfa milljón spilana
Lögin á plötunni eru þrettán talsins og voru öll samin sumarið 2020. „Það sumar var mjög afdrifaríkt í mínu lífi og ég samdi helling af tónlist sem var leið fyrir mig til að fá útrás fyrir allskonar tilfinningar. Ég var í raun að stíga mín fyrstu skref í lagasmíðum og vissi ekkert hvað ég var að gera, það eina sem ég vissi, var hvers konar tilfinningu ég vildi framkalla með lögunum. Ég samdi 20 lög þetta sumar og platan samanstendur af þrettán þeirra.“
Atli semur öll sín lög sjálfur en Skagfirðingurinn og „bróðir“ Atla eins og hann kallar hann, Haukur Sindri Karlsson, „prodúserar“ öll lögin. Flaggskip plötunnar að mati Atla er lagið Missing Her So en það lag er með rúmlega fimm hundruð þúsund spilanir á Spotify. „Ég man eftir því þegar ég spilaði það fyrir vini mína og fjölskyldu í fyrsta sinn en það var ákveðið móment hjá mér, þar sem ég áttaði mig á því að ég gæti kannski komist langt með tónlistarferilinn minn. Einnig þykir mér afskaplega vænt um lagið Goodbye en það er lokalag plötunnar og í því leyfðum við okkur að stíga aðeins út fyrir boxið.“
„Þema plötunnar er í raun og veru bara ferðalag sem ég tók sumarið 2020 í hausnum á sjálfum mér. Platan fjallar um sorg og hvernig maður glímir við hana, og hvernig maður þarf á endanum að taka ákvörðun um að leyfa sér að batna.“
Langt og flókið upptökuferli í gegnum heimsfaraldur
Upptökuferlið var ævintýralegt að sögn Atla. Platan var unnin í kringum Covid-faraldurinn og þær takmarkanir sem fylgdu honum. „Sumarið 2020 sem ég lögin og plana ásamt Hauki að vinna þau með honum og gefa svo út undir mínu nafni. Haukur var í námi í Kaupmannahöfn á þeim tíma, svo ég ákvað að reyna að flytja þangað til þess að við gætum klárað plötuna.“
Atli fékk leigt herbergi á farfuglaheimili í Köben á langtímaleigu en það var eiginlega lokað vegna faraldursins. „Við Haukur drifum okkur síðan í að vinna en við stefndum á að vera búnir að taka upp fyrstu útgáfur af öllum lögunum fyrir áramót, til þess að geta svo gefið út lögin árið 2021. Við náðum að klára „demo“ af öllum lögunum á plötunni 15. desember og áttum bókaða stúdíó tíma 16. 17. & 18. des til þess að taka upp raddir og hljóðfæri en akkúrat þann dag var ákveðið að Danmörk færi í harðar samkomutakmarkanir og öllum stúdíóum okkar var lokað.“
Hann flaug því heim um jólin án þess að hafa klárað lögin en stefndi á að fara aftur til Danmerkur í janúar en vegna samkomutakmarkana gekk það ekki eftir. „Ég tók þá við sem verslunarstjóri í Djáknanum tímabundið á meðan við reyndum að finna útúr því hvernig við gætum klárað plötuna.“
Fúsi Ben til bjargar
„Sem betur fer býr maður að nafni Fúsi Ben (Sigfús Arnar Benediktsson) á Sauðárkróki og við gátum fengið að vinna með honum að upptökum á tveimur fyrstu lögunum og gátum þá gefið þau út sumarið 2021. Haukur kom síðan til Íslands sumarið 2021 og við héldum áfram að vinna að lögunum í bílskúrnum heima á Hólavegi. Það ferli reyndist svo vera strembnara en við héldum en það var ekki fyrr en ári seinna (sumarið 2022) sem við loksins lögðum lokahönd á lögin þrettán og platan var loksins klár.“
Ætlar að nýta íslenska náttúrufegurð til að auka vinsældir
Atla dauðlangar til að halda tónleika hér á Sauðárkróki í sumar en hefur ekki komist lengra með þá pælingu. „Ég mun þó vera duglegur að stíga á svið hér og þar, en ég mun spila á Græna Salnum þann 30. júní. Ég hef svo verið að vinna með plötufyrirtæki að allskonar kynningarefni en það fer að mestu fram á TikTok í dag. Ég ætla að reyna að vera duglegur að nýta íslenska náttúrufegurð á TikTok-inu mínu í von um að hún dragi til sín áhorfendur.“
Framundan hjá Atla er undirbúningur næstu plötu og að klára námið sitt í London. „Í sumar ætla ég að semja nokkur lög til viðbótar og klára þar með seinni plötuna mína, en hún mun koma út, eitt lag í einu yfir ca. 2 ára tímabil. Einnig stefni ég á að fara til Los Angeles í smá vinnuferð í febrúar en þar hyggst ég hitta fólk og semja fyrir þau tónlist. Ég mun auðvitað fara aftur til London að sumrinu loknu en ég á eitt ár eftir af náminu mínu þar. Eftir það þá mun ég svolítið þurfa að ákveða hvað ég geri, en möguleikarnir eru í raun endalausir og mér finnst voðalega erfitt að skipuleggja mig meira en nokkrar vikur fram í tímann.“
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.