Ánægjuleg niðurstaða ársreiknings Skagafjarðar
Ársreikningur Skagafjarðar fyrir árið 2023 var samþykktur samhljóða við síðari umræðu í sveitarstjórn sl. miðvikudag. Í frétt á heimasíðu Skagafjarðar segir að niðurstaðan sé ánægjuleg, rekstrarafgangur samstæðunnar var samtals að upphæð 123 milljónir króna, afborganir langtímalána voru hærri en taka nýrra lána annað árið í röð og skuldahlutfall og skuldaviðmið lækkuðu einnig annað árið í röð, auk þess sem eiginfjárhlutfall og handbært fé í árslok hækkuðu á milli ára.
Þá jókst veltufé frá rekstri verulega á milli ára sem og fjárfestingar. Íbúum Skagafjarðar fjölgaði um 70 á milli ára.
Fram kemur í fréttinni að í 64. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Frá heildarskuldum og skuldbindingum er heimilt að draga frá hluta lífeyrisskuldbindinga sem og tekjur og skuldir veitna og langtímakröfu vegna Brúar lífeyrissjóðs. Hjá Skagafirði er skuldahlutfall í ársreikningi fyrir árið 2023, 113,9% án þess að dreginn sé frá sá hluti af heildarskuldum sem heimilað er í lögum og reglugerð. Skuldaviðmið er 86,9% þegar búið er að draga frá það sem heimilt er.
Nánar má kynna sér helstu þætti ársreikningsins á heimasíðu Skagafjarðar. Ársreikninginn má finna hér og greinargerð sveitarstjóra er að finna hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.