Aðgerðum í leikskólamálum í Skagafirði haldið áfram
Á síðastliðnu ári lagði fræðslunefnd Skagafjarðar það til að ráðist yrði í aðgerðir í leikskólamálum til að laða að starfsfólk, efla jákvæða vinnustaðamenningu og bæta starfsumhverfi leikskólanna. Aðgerðirnar þóttust takast vel og hefur fræðslunefndin nú lagt til þær verði framlengdar um eitt ár.
Um var að ræða tímabundnar aðgerðir til 12 mánaða sem endurskoða ætti í ljósi reynslunnar sem af þeim hlytist.
Í viðhorfskönnun sem framkvæmd var á meðal starfsfólks leikskólanna í Skagafirði og kynnt 5. júní sl., kemur fram að meirihluti svarenda sé ánægður með aðgerðirnar, segja þær hafa skilað tilætluðum árangri og telji mikilvægt að þeim sé haldið áfram.
Um er að ræða eftirfarandi aðgerðir:
- Starfsmenn leikskóla fá 50% afslátt af dagvistunargjöldum.
- Undirbúningstímar veittir til leikskólaliða og ófaglærða starfsmanna sem starfað hafa í 3 ár eða lengur.
- Ráðning á fólki í sveigjanlegar afleysingar, s.s. vegna fjarveru starfsmanna sem eru í námi.
- Ráðning á nýrri 50% stöðu aðstoðarleikskólastjóra og bætt við 50% stöðu deildarstjóra námsaðlögunar í Ársölum.
- Reglubundin mannauðsráðgjöf og stuðningur við stjórnendur og starfsfólk.
- Innleiðing á stefnu og viðbrögðum vegna veikinda og endurkomu til vinnu svo unnt sé að bregðast við og styðja starfsfólk með viðeigandi hætti.
- Starfsmenn sem ekki eiga börn á leikskóla fá tvo frídaga á þessu skólaári sem leitast verður við að veita í kringum jól og áramót eða í kringum páska.
- Niðurfelling dvalargjalda til foreldra sem geta haft börnin sín heima þegar óskað verður eftir skráningu barna í kringum jól, áramót eða páska.
- Styrkur til leikskóla Skagafjarðar vegna námsferðar leikskólanna að fjárhæð 30.000 kr. fyrir hvern starfsmann sem fer í ferðina. Leikskólarnir fá greiddan styrkinn.
Bókun fræðslunefndar má nálgast hér.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.