Á sjöunda tug manna biðu þess að Skagfirðingabúð opnaði í morgun
Skagfirðingabúð opnaði klukkan 10:00 í morgun líkt og vanalega. Það var þó óvenjulegt að fjöldi fólks beið fyrir utan búðina, hátt í á sjöunda tug manna. Ástæðan fyrir því er að vísu ekkert óeðlilegt, Skagfirðingabúð fagnar 40 ára afmæli um þessar mundir og í tilefni þess er 40% afsláttur á völdum vörum.
Pétur Pétursson var yfirsmiður byggingarinnar á sínum tíma og er hún var opnuð fyrst, 19. júlí árið 1983, flaggaði hann fyrir framan búðina. Það var því við hæfi að hann skildi gera það sama í morgun, 40 árum seinna.
Feykir spyr hvort hann muni vel eftir deginum þegar búðin var opnuð.
„Reyndar, það var nú betra veður, en þetta er samt ekkert alslæmt veður. Það var búið að streða hérna í nokkra daga og eftirvæntingin mikil.“
Aðspurður finnst honum Skagfirðingabúð hafa staðist tímans tönn ljómandi vel.
„Við vorum með frábæra fagmenn hér, bara hreinlega landsliðið. Sá sem var aðalteiknari hérna, Gunnar Guðnason, hann var ljómandi drengur.“
Þegar hann er inntur eftir því hvort hann ætli að gera stórkaup, er hann ekki viss.
„Ég þarf að fá mér einn lítra af mjólk og ég veit ekki hvort það verði mikið meira,“ segir Pétur léttur.
Hátt í sjötíu manns biðu fyrir utan búðina þegar hún var opnuð, það var hugur í Skagfirðingum að gera góð kaup og ábyggilega, fyrst og fremst, fagna afmæli Skagfirðingabúðar.
Klukkan fjórar mínútur yfir tíu voru allar kerrur búðarinnar farnar úr stæðum sínum, tilbúnar að hjálpa til við stórkaup.
Árni Kristinsson, verslunarstjóri Skagfirðingabúðar, segist hafa búist við þessari aðsókn.
„Ég bjóst alveg við því að yrði svona sprengja í byrjun“
Blaðamaður spyr Árna hvort hann eigi von á að gera stórsölur í dag.
„Það verða stórar sölur en minna fyrir það,“ segir Árni og hlær.
Það myndaðist hálfgerð umferðarteppa í búðinni sem minnti helst á Þorláksmessudag í Skagfirðingabúð.
Það er vel við hæfi að kaupa lopa á góðu verði enda veðrið með kaldara móti í dag og næstu daga.
Afslættirnir verða í dag og á morgun, og á frá kl. 13 - 15 á morgun verður grillveisla fyrir utan Skagfirðingabúð.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.