850 grunnskólanemar heimsóttu 1238
Skagafjörður nýtur mikilla vinsælda sem áfangastaður grunnskólanema sem eru að ljúka grunnskólagöngu sinni og í lok maí fram í miðjan júní leggur mikill fjöldi 10. bekkinga leið sína um fjörðinn. Sýninguna 1238 heimsóttu í ár tæplega 850 grunnskólanemar í skólaferðalagi, en auk 10.bekkinga af landinu öllu komu nokkrir hópar yngri nemenda úr nærliggjandi skólum og svæðum.
„Þetta er um 300 fleiri nemendur heldur en á sama tíma í fyrra svo óhætt er að segja að heimsókn á sýninguna njóti sífellt meiri vinsælda. Okkur þykir alveg einstaklega skemmtilegt að taka á móti skólahópum og sérsníðum skólaheimsóknirnar að þörfum hvers hóps,“ segir Freyja Rut, framkvæmdastjóri 1238.
„Hingað komu í vor skólahópar frá 1.-10. bekk en framhaldsskólahóparnir koma frekar yfir veturinn, enda eru ferðirnar þá frekar námsferðir heldur en skemmtiferðir eins og gjarnan er hjá grunnskólunum. Þá hefur heimsóknum erlendra skólahópa einnig verið að fjölga og svo er auðvitað talsvert af ferðafólki, sérstaklega þeim sem ferðast á eigin vegum sem leggja leið sín á sýninguna.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.