1238 efst á lista Lonely Planet yfir áhugaverðustu afþreyingarmöguleika landsins
Tom Lundmark, sænskur sagnfræðingur og meistaranemi í stafrænum hugvísindum við Háskólann í Uppsala í Svíþjóð, segir sérstöðu 1238 einkum fólgna í áherslu á hugmyndafræði leikjavæðingar og nýstárlegri framsetningu á menningararfinum með stafrænni tækni til að höfða til breiðari hóps. Tom var í heimsókn hjá 1238, í tvær vikur í mars og apríl við rannsóknarstörf.
Á Facebook-síðu 1238 kemur fram að rannsókn Lundmark fjalli um notkun sýndarveruleika í miðlun menningararfsins og varð 1238 fyrir valinu vegna þeirrar sérstöðu sem sýningin hefur á heimsvísu, en við uppsetningu og hönnun sýningarinnar hefur verið unnið mikið frumkvöðlastarf hvað varðar samtvinnun hönnunar, hugbúnaðartækni og menningartengdrar ferðaþjónustu.
„Þessi sérstaða sýningarinnar 1238 hefur verið staðfest á undanförnum misserum með tilnefningum og viðurkenningum bæði innanlands og utan, t.d. evrópsku menningarverðlaunanna Heritage in Motion, Sproti ársins hjá Markaðsstofu Norðurlands og framúrskarandi verkefni hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, auk þess sem Lonely Planet setti sýninguna og söguferðaþjónustu nýlega efst á lista yfir áhugaverðar afþreyingarmöguleika á Íslandi“ segir í tilkynningu fyrirtækisins.
Tæknilegar lausnir fyrir söfn og sýningar
Áskell Heiðar og Freyja Rut hjá 1238
Þau Freyja Rut Emilsdóttir og Áskell Heiðar Ásgeirsson verða fulltrúar Íslands á alþjóðlegu ráðstefnunni Museum Next Digital Summit sem fram fer dagana 15.-16.maí næstkomandi. Samkvæmt frétt 1238 verður fjallað um tæknilegar lausnir á ráðstefnunni fyrir söfn og sýningar, hvernig söfn geta nýtt nýjustu tækni og aðferðir leikjavæðingar við að miðla menningararfinum. „Ráðstefnan sameinar söfn og sýningar víðsvegar að úr heiminum til að deila sögum um hvetjandi og áhugaverð stafræn menningarverkefni. Ráðstefnan fer fram í gegnum vefinn og því geta allir skráð sig og tekið þátt, og hægt er að hlusta á erindin í nokkrar vikur eftir. 1238 hefur vakið athygli safnafólks víða um heim með nýstárlegri notkun á nýjustu tækin, aðferðum og verkfærum, einkum sýndarveruleika við miðlun sagna og menningararfs.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.