Vinsæll kúrekapottréttur og eplakaka með marengs

Matgæðingarnir Guðmann og Ósk. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Guðmann og Ósk. Aðsend mynd.

Matgæðingar 38. tölublaðs Feykis árið 2018 voru Ósk Jóhannesdóttir og Guðmann Valdimarsson, búsett á Blönduósi en Guðmann er Blönduósingur að upplagi og Ósk er fædd og uppalin á Akureyri. Guðmann vinnur hjá Rafmagsverkstæðinu Átak en Ósk er heimavinnandi ásamt því að vinna með fötluðum. Þau eiga tvö börn, Valdimar Loga og Stefaníu Björgu.

Ósk og Guðmann gáfu lesendum uppskrift að kúrekapottrétti sem þau sögðu að væri mjög vinsæll hjá börnunum á heimilinu og oft pantaður. Uppskriftina að réttinum sagðist Ósk hafa fengið hjá systur sinni ásamt eftirréttinum sem þau buðu upp á. „Það er eplakaka með marengs sem smakkast guðdómlega og að sjálfsögðu þarf að vera með ís með honum,“ sagði Ósk.

AÐALRÉTTUR
Kúrekapottréttur (Chili con carne)

U.þ.b. 500 g folaldagúllas
2 laukar, saxaðir
½ -1 hvítlaukur, saxaður
1 dós tómatpúrra, 170 g
1-2 nautateningar
chilipipar
svartur pipar, grófmalaður
smávegis af salti
u.þ.b. 2 msk. paprikuduft
u.þ.b. ½ l vatn
1 dós bakaðar baunir (mega vera 2 dósir ef þið viljið)
100-200 g beikon, skorið í bita

Aðferð:
Gúllas og beikon brúnað. Tekið af pönnunni og geymt meðan grænmetið er glærað í smá smjöri og olíu. Þá er gúllasinu hrært út í og kryddað með paprikuduftinu, teningum og chiliduftinu. Mallað í u.þ.b. ½ -1 mínútu. Þá er vatni og púrru hrært út í og látið malla, allt upp í þrjár klukkustundir en að minnsta kosti eina, þannig að mesta vatnið hafi gufað upp og bara þykk sósa eftir. Smakkið til með salti og pipar. Í lokin, rétt áður en borið er fram þá er bökuðu baununum bætt út í og bara látið hitna en ekki sjóða.
Flott með hrísgrjónum og góðu brauði með smjöri.

EFTIRRÉTTUR
Eplakaka með marengs

Botn:

150 g smjör
3½ dl hveiti
1 msk. vatn

Aðferð:
Hnoðið létt saman. Þrýstið í eldfast mót og upp með hliðunum. Pikkið botninn með gaffli og bakið í 10 mínútur við 200°C.

Fylling:

4 stór epli, afhýdd og steinhreinsuð og skorin í bita
2 dl sykur
2 tsk. kanill

Sjóðið allt saman í u.þ.b. 8 til 10 mínútur. Setjið allt saman yfir deigið í bakkanum.

Marengs:

3 eggjahvítur
1½ dl sykur

Stífþeytið hvíturnar og blandið sykrinum smátt og smátt út í. Þekið eplin með marengsinum og bakið í 150° heitum ofni í 25 mínútur.
Best með vanilluís eða rjóma.

Verði ykkur að góðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir