Sumarleg hádegismáltíð

Guðni Þór og Guðrún Lára á Melstað
Guðni Þór og Guðrún Lára á Melstað

Matgæðingar í tbl 30 voru hjónin Guðrún Lára Magnúsdóttir og Guðni Þór Ólafsson á Melstað í Miðfirði í Húnaþingi vestra. Guðrún Lára er leikskólastjóri á Hvammmstanga og Guðni Þór er sóknarprestur í Melstaðarprestakalli.

„Ég hef gaman af því að elda mat og bjóða gestum heim,“ segir Guðrún Lára. „Það kemur í minn hlut á heimilinu að elda en Guðni er liðtækur og leggur sitt af mörkum, þá sérstaklega þegar kemur að því að ganga frá eftir matinn. Nú stendur sumarfríið yfir hjá mér í leikskólanum og því tilvalið að bjóða upp á sumarlega hádegismáltíð og ekki verra ef hægt væri að borða úti í garði. Svo er það loka punkturinn, gulrótarkaka úr glænýjum gulrótum. Hér í nágrenni við okkur er verið að rækta grænmeti og ávexti sem hægt er að kaupa og eða vera í áskrift. Við erum þakklát fyrir að geta keypt ferskar vörur og þess vegna veljum við þessar uppskritir. Það er mikilvægt að skapa góða stemningu við matarborðið. Matmálstími er ein af bestu stundum dagsins þar kemur fjölskyldan saman og á samveru og samtal um það sem liggur á hjarta yfir góðum mat. Það er tilvalið að nýta matargerð og frágang sem fjölskyldusamveru þar sem allir hafa hlutverk og geta tekið þátt, óháð aldri. Njótið sumarsins og verði ykkur að góðu.“

RÉTTUR 1

Salat með jarðarberjum

300 g jarðarber
1 salathöfuð
4 msk. sítrónusafi
1 tsk. sykur (eða annað sætuefni)

Sósa:
2 dósir hrein jógúrt (360 g)
3 msk. sítrónusafi
2 tsk. sykur (eða annað sætuefni)
1 tsk. græn piparkorn, mulin

Aðferð:
Blandið saman 2 msk. af sítrónusafa og einni af sykri. Skolið af jarðarberjunum og skerið i tvennt og látið þau liggja í sítrónuleginum. Rífið niður salatið og hellið 2 tsk. af sítrónusafa yfir þau.
Sósa: Hrærið saman jógúrt, sítrónusafa, sykri og piparkornum. Fallegt er að raða heilum salatblöðum í hring inn í skálinni og setja rifið salatið í miðjuna. Leggið jarðarberin ofan á og hellið sósunni yfir rétt áður en borið er fram.

RÉTTUR 2

Fiskisúpa fyrir 5-6 manns

2 dósir Hunts orginal garlic
3 bollar vatn
½ bolli laukur
½ bolli gulrætur
½ bolli sellerí
½ bolli paprika
½ - 1 kjúklingateningur
1 msk. púðursykur
250 g rækjur, þorskur (vel þann fisk sem ég á í frystikistunni)

Aðferð:
Allt grænmetið er skorið niður. Soðið í 20- 30 mínútur og er fiskurinn settur út í undir lok suðutímans.

RÉTTUR 3

Haframjölsbrauð með súpunni

12 dl hveiti
2½ dl haframjöl, gróft
2 tsk. sykur
2 tsk. gróft salt
5 tsk. þurrger, eitt bréf
4 dl léttmjólk, volg
1 dl súrmjólk
1½ dl matarolía

Aðferð:
Blandið saman þurrefnum, hrærið saman volgri mjólkinni, súrmjólk og olíu og setjið út í þurrefnin.
Látið deigið hefast á hlýjum stað í eina klukkustund. Hnoðið vel og skiptið deiginu í tvennt og búið til tvær þykkar pylsur. Látið hefast í 30 mínútur. (Hægt er að pensla yfir brauðin með sundurslegnu eggi og strá haframjöli yfir). Bakið á neðstu rim við 200°C í 30 mínútur.

RÉTTUR 4

Gulrótarkaka

2 dl olía
200 g púðursykur
4 egg
175 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. matarsóti
½ tsk. salt
2 tsk. kanill
400 g gulrætur
1 bolli rúsínur
250 g hnetur

Aðferð:
Allt sett í skál og hrært saman, sett í eitt form og bakað við 180°C í 30-60 mínútur. Einnig er hægt að setja deigið í tvö form, þá eru kökurnar þynnri.
Kakan er kæld og sett á krem:

100 g rjómaostur
50 g smjör
125 g flórsykur
1 tsk. vanilludropar

Gott er að bera fram rjóma með kökunni.

Guðrún Lára og Guðni skoruðu á Jennifer Tryggvadóttur á Hvammstanga sem er matgæðingurinn í tbl 33 sem kom út á miðvikudaginn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir