Silungur og lambafille úr héraði

Matgæðingarnir Bjarni Kristinsson og Brynja Birgisdóttir. Aðsendar myndir.
Matgæðingarnir Bjarni Kristinsson og Brynja Birgisdóttir. Aðsendar myndir.

Matgæðingar vikunnar í 11. tbl. Feykis árið 2017 voru þau Brynja Birgisdóttir og Bjarni Kristinsson sem fluttu á Blönduós árið 2012 ásamt tveimur börnum sínum og sögðust una þar hag sínum hið besta. Á heimilinu er eldað af tilfinningu og leggja þau áherslu á að nota Prima kryddin sem eru framleidd hjá Vilko á Blönduósi og segjast geta mælt með þeim. Þau buðu upp á silung úr héraði og lambafille frá Neðri-Mýrum ásamt suðrænum ávöxtum. 

FORRÉTTUR (fyrir 4)
Léttsteiktur silungur/bleikja  með spergli 

1-2 flök silungur
50-100 g smjör
salt
pipar
fiskikrydd frá Prima
80 g parmesan ostur 

Spergillinn:
1-2 búnt ferskur spergill (600 -700 g)Léttreyktur silungur með spergli.
1 sítróna
2-3 tsk hunang
salt og pipar  eftir smekk
steinselja 

Aðferð
Setjið upp vatn í pott og saltið nokkuð vel og láatið suðuna koma upp á meðan silungurinn er gerður klár til steikingar.  Skerið flökin í passlega bita (u.þ.b. fjórir bitar úr flakinu), bræðið 50-100 g af smjöri  á pönnunni og penslið silungsstykkin með því áður en smjörið er alveg orðið heitt. Stráið svo örlitlu af steinselju og fiskikryddi frá Prima yfir, piprið og saltið eftir smekk. Setjið svo bitana á vel heita pönnuna, roðið fyrst og steikið stutta stund, snúið fiskinum á pönnunni. Þá er gott að setja spergilinn út í sjóðandi saltvatnið og sjóða í 2-3 mín eða þannig að hann mýkist. Snúið svo silungnum einu sinni enn  og látið steikjast í 1 mín til viðbótar.  Með þessum rétti er gott að hafa sítrónusósu. 

Kreistið eina sítrónu, setjið 2-3 tsk af hunangi saman við  bragðbætið með salti og nýmöluðum svörtum pipar.

Takið spergilinn upp og setjið hann á disk, 3-4 stk á hvern disk. Setjið svo silunginn þar ofan á og loks sítrónusósuna ásamt parmesanostinum. Berið fram heitt,  gott er að hafa salat á kantinum. Það má vera eins og hvern lystir, ég tók Lambhagasalat reif það niður, skar þá rauðlauk  og púrrulauk ásamt avakadói og setti á diskinn sletti svo smá dass af avakado olíu yfir. 

AÐALRÉTTUR
Lambfille með sveppasósu, kartöflubátum og gufusoðnu grænmeti

4 bitar lamafille (eða einn úrbeinaður hryggur)
50 g smjör
villijurtakrydd, pipar, salt og aromat
kartöflur 

Aðferð:
Kartöflur skornar í báta og settar í eldfast mót, slettið smá olífuolíu yfir og stráið Rósmarín kryddi og slatta af grófu salti yfir ásamt svolitlu af svörtum pipar. Hrærið vel saman. Setjið inn í ofn  og bakið við 170° í u.þ.b. 30-40 mín eða þar til kartöflurnar eru fallega brúnaðar.
Setjið smjörið á pönnuna og hitið vel, setjið þá kjötið á pönnuna og snúið fituhliðinni niður. Kryddið kjöthliðina á meðan, setjið tilfinninguna í þetta, brúnið létt og snúið kjötinu við og kryddið vel. Setjið nú smá salt á puruna, lokið kjötinu og setjið í eldfast mót og inn í ofn við 170° í u.þ.b. 15 mín.  Þetta ætti að haldast í hendur við kartöflurnar. 

Sósa

ein askja sveppir
50-100 g smjör
5 dl rjómi
salt og hvítlauksduft 

Aðferð:
Sveppirnir eru sneiddir niður, smjör sett í pott og brætt. Setjið sveppina saman við þegar smjörið er orðið heitt, hrærið í þeim. Þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir skuluð þið setja 5 dl rjóma saman við og hræra vel. Setjið örlítið af salti og hvítlauksdufti saman við, smakkið til og látið þetta malla við lágan hita þar til sósan fer aðeins að þykkna. Berið fram með kjötinu. 

 

EFTIRRÉTTUR
Suðrænir ávextir með bræddu súkkulaði  og kaffi 

Aðferð: 
Skerið ávexti og setjið á disk eða í lága skál. Bræðið 150 g súkkulaði og setjið 40 g smjör saman við ásamt 2 msk af sírópi. Þegar súkkulaðið er tilbúið er það sett yfir ávextina eftir smekk. Það má bera þetta fram með þeyttum rjóma. 

Verði ykkur að góðu.   

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir