Rauðmagi eldaður á ýmsa vegu

Hér er mynd af bæði grásleppu, þessi stærri, og rauðmaga. Mynd tekin af heimasíðunni fiskibokin.is.
Hér er mynd af bæði grásleppu, þessi stærri, og rauðmaga. Mynd tekin af heimasíðunni fiskibokin.is.

Ég má til með að deila þessari frétt sem ég gerði árið 2021 um hvernig skal elda rauðmaga á ýmsa vegur því hún á vel við í dag þar sem grásleppuvertíðin byrjaði fyrir viku síðan og rauðmaginn slæðist með upp á land. En það eru margar fiskitegundirnar ljótar en þessi er ein af þeim ljótari og það vill svo til að ég er þannig gerð að ef útlitið er ógeðslegt þá hlýtur bragðið að vera vont líka. En þeir sem vita betur en ég segja að því ljótari sem fiskurinn er, því betra sé bragðið. 

Þar sem faðir minn, Haukur Steingrímsson, er einn af fáum sem fer á rauðmagaveiðar þá fannst mér tilvalið að koma með nokkrar uppskriftir sem hægt að að elda úr þessum ljóta fiski með von um að við, yngri kynslóðin sem höfum ekki smakkað rauðmaga, prufum að elda þetta „hnossgæti“ því nú fæst hann í helstu matvöruverslunum hér í Skagafirði, Skagfirðingabúð og Hlíðarkaup.

Reyktur rauðmagi sem forréttur:
reyktur rauðmagi – keyptur út í búð
1 rauðlaukur
1 gulrót
rúgbrauð
smjör

Aðferð: Rauðmaginn skorinn í þunnar sneiðar. Rauðlaukurinn maukaður í matvinnsluvél ásamt gulrótinni. Brauðið smurt með smjöri, rauðlauksmaukið sett ofan á og síðan reyktur rauðmagi.

Soðinn rauðmagi:
2 rauðmagar
1 lárviðarlauf
8 piparkorn
1 msk. borðedik
salt

Aðferð: Hausinn er skorinn af og fiskurinn er ristur á kviðinn og hreinsað innan úr honum. Rauðmaginn er svo þveginn vel í köldu vatni. Sjóðandi vatni hellt á rauðmagahveljuna, hún skafin vel, allir gaddarnir skafnir af. Ef ekki á að borða hveljuna með er hún rifin af. Rauðmaginn skorinn í fremur þunnar sneiðar, u.þ.b. 1,5 cm þykkar. Vatn hitað í stórum potti, lárviðarlauf, piparkorn, edik og salt sett út í og látið sjóða í nokkra mínútur.

Rauðmagasneiðarnar settar út í og látnar sjóða við vægan hita í 5-6 mínútur, fer eftir þykkt á sneiðum. Gott að bera fram með sítrónubátum og/eða ediki og soðnum kartöflum.

Piparrótarsósa(góð með soðnum rauðmaga) 

1 dós sýrður rjómi 36%

1 tsk. edik

2 tsk. sykur

2 tsk. rifin piparrót

Aðferð: Sýrður rjómi, edik og sykur hrært saman og piparrótinni bætt við síðast.

Steiktur rauðmagi -fyrir fjóra

3 - 4 stk. rauðmagi

100 g hveiti

slurkur af sítrónupipar og pipar

salt

matarolía

Aðferð: Rauðmaginn er roðflettur og hreinsaður. Skorinn þversum í þunnar sneiðar (1,5 sm.). Því næst er rauðmagasneiðunum, hveitinu og piparnum komið fyrir í plastpoka og hrist saman. Sett á vel heita pönnu með smá olíu og brassað vel báðum megin þangað til hann fær fallegan ljósbrúnan lit. Borið fram með nýsoðnum kartöflum og fersku salati.

Kaperssósa(góð með steiktum rauðmaga)

Aðferð: Feitin af pönnunni síðan fiskurinn var steiktur er hrærð saman við hveiti og dálítilli mjólk bætt útí. Smá vatn eða fiskisoð er sett út í sósuna. Nokkur kaperskorn ásamt ediki og salti sett að lokum út í þar til sósan er mátulega sterk.

Rauðmagasúpa

2 stk. af rauðmaga

salt

edik

lárviðarlauf

sveskjur

rúsínur

Aðferð: Fiskurinn skorinn í sneiðar en látinn hanga saman á brjóskinu. Stór pottur hálffylltur af vatni, salti, ediki og nokkur lárviðarlauf sett út í vatnið. Suðan látin koma upp og rauðmaginn settur út í, soðið í fimm mínútur, froðan veidd ofan af. Soðið af fiskinum sett í pott, örlítið skilið eftir sem hrært er út í hveitijafning og gerð sósa. Út í súpuna eru nú settar nokkrar mjúkar sveskjur og rúsínur og bragðbætt með sykri og ediki þar til súpan er mátulega sterk. Súpan borin fram með rauðmaganum, hveitisósunni og heitum kartöflum.

Rauðmagi í hlaupi með gulrótum

rauðmagi

salt

edik

lárviðarblöð

1 gulrót

6 blöð matarlím

steinselja

sítróna

Aðferð: Potturinn hálffylltur af vatni og það saltað vel. Ediki og tveim lárviðarblöðum bætt út í og suðan látin koma upp. Rauðmaginn skorinn í sneiðar og settur í vatnið og látinn sjóða í fimm mínútur. Soðin gulrót (stór) er brytjuð í þunnar sneiðar og síðan er allt sem í pottinum er látið bíða dálitla stund. Sex blöð af matarlími eru leyst upp í vatni og blandað saman við soðið í pottinum. Öllu hellt í stórt form og látið kólna. Skreytt með gulrótarsneiðum, steinselju og sítrónu. Borðað með heitum kartöflum og góðri sósu t.d piparrótarsósu eða gúrkusósu.

Gúrkusósa:

Ein gúrka flysjuð og skorin í sex ræmur eftir endilöngu og síðan í litla bita, sem soðnir eru í ediksblöndu örlitla stund. Búinn til jafningur úr hveiti og smjörlíki og þynnt út með fisksoði. Gúrkubitarnir og ediksblandan eru sett út í og sósan krydduð eftir smekk og borin framm heit.

 

Þessar uppskriftirnar eru teknar upp úr grein sem birtist í blaðinu Vísi 90. tbl. 1968 og af bloggsíðu Ingu Helgadóttur.

Verði ykkur að góðu

Siggasiggasigga

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir